Föstudaginn 14. mars kl. 18.00 var opnuð sýning í Listasafni Reykjanesbæjar sem ber heitið Ljósmyndin ímyndin portrettið. Á sýningunni mætast verk Sigríðar Melrósar Ólafsdóttur og Karls Jóhanns Jónssonar. Það má segja að stefnumót listamannanna og verka þeirra sé byggt á því að nálgun þeirra á viðfangsefninu sé ólík þó bæði geri portrett. Bæði eiga það sameiginlegt að nota ljósmyndamiðilinn sem verkfæri í vinnuferlinu þó útkoman sé málverk, grafík eða teikningar.
Sigríður sýnir mörg verk, grafíkverk og málverk af sömu manneskjunni sem er nektardansarinn Lísa. Áður hefur Sigríður gert fjölskyldumyndir, málað kaupmanninn á horninu og alla hans fjölskyldu og málað hópmynd af bifvélavirkjunum sem á undaförnum árum hafa séð um viðgerðir á bílnum hennar. Á síðasta ári urðu þó kaflaskil en þá sýndi hún í Gerðarsafni portrett af íbúunum á LitlaHrauni. Hún er að færast fjær þeim heimi sem stendur henni næst og er farin að skoða persónur og gera portrett af manneskjum sem lifa í undirheimum. Hún fjölfaldar á sýningunni myndir af sömu manneskjunni sem eykur enn á fjarlægð við sjálfa fyrirmyndina. –á sýningunni fá reyndar nokkrar myndir af eðalkarlmönnum að fylgja með sem koma henni Lísu ekkert við.
Karl Jóhann sýnir málverk þar sem hann hefur tekið fyrir tvær eða fleiri manneskjur á sama striga. Karl málar gjarnan það fólk sem er í kringum hann, eiginkonu, börn,vini og sjálfan sig en á myndunum er þetta allt annað fólk, í öðrum hlutverkum. Hvert verk sýnir einhvern atburð eða stemmningu sem Karl spinnur upp og sviðsetur, sem virkar þannig að áhorfandinn gæti gleymt sér í að einblína á það sem ekki er sýnt. Í verkum Karls má oft greina beinar og óbeinar vísanir í listasöguna.
Spurningin er svo „hvað gerist“ þegar þessi verk eru saman komin? Gæti þetta virkað eins og ættarmót þar sem kannski má sjá einhvern undirliggjandi fjölskyldusvip eða getur þetta jafnvel farið á hinn veginn þ.e. að allir verði sem ókunnugir samankomnir á almenningssvæði.....
Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannesdóttir.
Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duushúsum. Þar er opið alla daga frá kl. 11.00-17.00 og aðgangur er ókeypis. Sýningin stendur til 4. maí.
Nánari upplýsingar:
Inga Þórey Jóhannesdóttir: 662-8785
Sigríður Melrós Ólafsdóttir:663-9894
Karl Jóhann Jónsson: 896-5669