Listasafn Reykjanesbæjar hlýtur styrk frá Barnamenningarsjóði

Virkjun skapandi lista meðal barna í Reykjanesbæ

Barnamenningarsjóður úthlutar styrkjum til 41 verkefnis árið 2024

Sjóðurinn styrkir 41 metnaðarfullt verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 102,4 milljónir króna. Alls bárust 117 umsóknir og var sótt um 383 milljónir króna. Úthlutun var tilkynnt við athöfn í Safnahúsinu á degi barnsins, sunnudaginn 26. maí 2024.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra og Guðný Hilmarsdóttir formaður stjórnar Barnamenningarsjóðs ávörpuðu gesti og greindu frá úthlutun. Kammersveit skipuð ungum listamönnum þeim Sigrúnu Mörtu Arnaldsdóttur, Sólu Björnsdóttur og Sveindísi Eir Steinunnardóttur lék tvö lög við góðar undirtektir.

Hæsta styrkinn 11.5 milljónir, fær Reykjavíkurborg í samstarfi við Akureyrar- og Ísafjarðarbæ fyrir Leikskólaverkefnið sem byggir á samstarfi leik- og tónlistarskóla í öllum þremur sveitarfélögunum. Nemendur í tónlistarskóla vinna með elstu börnum leikskóla og lýkur verkefninu með sameiginlegum lokatónleikum. Næsthæsta styrkinn, 6 milljónir, fær Vestfjarðarstofa fyrir barnamenningahátíð Vestfjarða, Púkann 2025, en hátíðin fer fram vítt og breitt um Vestfirði.

Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og menningarmálaráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins um úthlutun.

Verkefnið, Virkjun skapandi lista meðal barna í Reykjanesbæ, fær styrk upp á 5 milljónir. Listasafn Reykjanesbæjar setur upp verkefni fyrir Listahátíð barna og ungmenna í samstarfi við grunnskóla Reykjanesbæjar, 5. bekkur í öllum grunnskólum taka þátt í merkingarbæru þematengdu verkefni sem unnið er sérstaklega fyrir Listahátíð. Allir sjö skólar bæjarfélagsins starfa með einum myndlistamanni og Listasafni Reykjanesbæjar. Verkefnið jafnar aðgengi barna að myndlist og opnar fyrir nýungar í kennslufræði.