Listasafn Reykjanesbæjar 15 ára – Opnun þriggja afmælissýninga

Listasafn Reykjanesbæjar fagnar 15 ára afmæli í ár.  Eiginleg safnastarfsemi hófst í apríl 2003 en segja má að Listasafn Reykjanesbæjar hafi þó verið til sem hugmynd allt frá sameiningu sveitarfélaganna Njarðvíkur, Hafna og Keflavíkur í Reykjanesbæ árið 1994.  Á þeim tíma var þó varla hægt að tala um formlegt listasafn heldur fyrst og fremst utanumhald á listaverkaeign bæjarins sem var þó nokkur.   Árið 2003  var hins vegar opnaður góður sýningarsalur í Duus Safnahúsum sérstaklega ætlaður Listasafninu, unnin var stofnskrá og safnið fékk  sjálfstæðan fjárhag.  Listasafn Reykjanesbæjar var þar með orðið sjálfstæð stofnun innan bæjarfélagsins og eitt af þremur söfnum bæjarins.  Frá árinu 2003 hefur starfsemin farið vaxandi með hverju árinu og árið 2014 var Listasafn Reykjanesbæjar eitt af þeim söfnum á Íslandi sem fékk formlega gildingu samkvæmt nýjum safnalögum frá 2011. 

Listasafn Reykjanesbæjar opnar í tilefni 15 ára afmælisins þrjár sýningar í Duus Safnahúsum föstudaginn 1.júní n.k. kl.18.00.  Verkin á sýningunum þremur koma öll úr safneigninni og hefur safnið eignast flest þeirra á þeim 15 árum sem liðið hafa frá formlegri stofnun þess. Verkin eru af margvíslegu tagi, s.s. olíuverk, vatnlitamyndir, skúlptúrar og  grafík og eru eftir hina ýmsu listamenn en þó fyrst og fremst samtímamenn, tæplega 60 listamenn eiga verk á sýningunum. Í Listasalnum er uppistaðan olíuverk og skúlptúrar, í Bíósalnum eru sérstaklega teknar fyrir mannamyndir og gengur sú sýning undir heitinu „Fígúrur“ og  í Stofunni má sjá fjölda vatnslitamynda eftir málarann og heimamanneskjuna Ástu Árnadóttir sem fjölskylda hennar gaf safninu.  Sýningarstjóri allra sýninganna er Inga Þórey Jóhannsdóttir.

Sýningarnar þrjár eru jafnframt sumarsýningar safnsins og eru opnar til 19.ágúst. Safnið er opið alla daga 12.00-17.00.

 

Gallery - Afmælissýningar