Listamannaspjall - Meira en þúsund orð

Jana Birta Björnsdóttir

Sunnudaginn 14. nóvember kl. 14:00 mun Jana Birta Björnsdóttir ræða einkasýningu sína, Meira en þúsund orð, sem nú stendur yfir í Bíósal Duus Safnahúsa.

 

Meira en þúsund orð

Jana Birta Björnsdóttir er að þessu sinni sá listamaður sem safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar bauð til að taka þátt í samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og Duus Safnahúsa, við listahátíðina List án Landamæra.

Jana Birta fæddist í Keflavík árið 1989 en flutti til Reykjavíkur þegar hún hóf nám í Háskóla Íslands en Jana Birta starfar nú sem lífeindafræðingur á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Frá árinu 2017 hefur Jana Birta verið að teikna og mála og heillaðist hún strax í upphafi þess ferðalags af vatnslitum. Jana hefur mikið næmi fyrir miðlinum og hefur á undanförnum árum verið að þróa tækni sína og færni í að koma hugmyndum sínum á framfæri. Hún hefur sótt sér þekkingu í gegnum námskeið á netinu og hefur einnig sótt námskeið hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur og Myndlistarskóla Kópavogs. 

List Jönu Birtu hefur pólitíska og félagslega skírskotun í samtímann. Hún gerir málefni fatlaðs fólks að umfjöllunarefni þessarar sýningar og túlkar á myndrænan hátt hugmyndir, tilfinningar og baráttumál feminískrar fötlunarhreyfingar sem nefnist Tabú. Hreyfingin vinnur að félagslegu réttlæti gegn margþættri mismunum gagnvart fötluðu fólki og hefur Jana Birta verið meðlimur samtakanna um nokkurt skeið. 

Verkin sem finna má á sýningunni Meira en þúsund orð eru hlaðnar merkingum og margræðum, íronískum táknum. Merkingum og táknum sem geta verið áhorfandanum aðgengileg þar sem þær endurspegla menningu okkar samfélags og veruleika ákveðins minnihlutahóps sem í honum býr. Þær vekja einnig upp ýmsar óþægilegar spurningar, spurningar um mismunum og óréttlæti. 

Á sýningunni má finna 16 setningar um ofbeldismyndir gegn fötluðu fólki en setningarnar mótuðu meðlimir samtakanna Tabú. Vatnslitaverkin beina sjónum áhorfandans að viðfangsefni þessara setninga og hefur Jana Birta túlkað á myndrænan hátt það sem felst í hverri setningu. Í gegnum list Jönu Birtu Björnsdóttur fáum við að skyggnast inn í heim þar sem hindranir eru víða og oft á tíðum ósýnilegar þeim sem ekki tengjast honum beint. 

Myndir geta skerpt skilning orða og gert viðfangsefni augljósari og raunverulegri vegna þess að þær tjá einnig stemningu og tilfinningu orðanna. Viðkvæm atriði sem áhorfandinn getur hugsanlega misst af við lestur setninga sem varpað hefur verið upp á hvítan dregil í sýningarýmingu eru gerð skýr, gerð aðgengilegri og dregin fram á sjónarsviðið á myndrænan og áhrifaríkan hátt. 

Það er sagt að myndir segi meira en þúsund orð og á það svo sannarlega við um verk Jönu Birtu. List hennar fellur undir það sem kalla má aktivisma í myndlist, en það er nálgun í listum sem er byggð á virkri þátttöku listamannsins í aðgerðum á pólitískum eða félagslegum vettvangi en myndlistin hefur í sínum fjölbreytileika mikið verið notuð á þennan hátt í gegnum tíðina. Kínverski samtímalistamaðurinn A Weiwei fer þá leið í sinni listsköpun og segir m.a.; „ef eitthvað er þá snýst listin um... siðferði, um trú okkar á mannkynið. Án þess er einfaldlega engin list.“

Helga Óskarsdóttir og Ásdís Spanó, sýningarstjórar.

 

Ágrip

Jana Birta Björnsdóttir er lífeindafræðingur og starfar við veirurannsóknir á Landspítalanum ásamt því að sinna stundakennslu við Háskóla Íslands. Einnig er hún meðlimur í Tabú feminískri hreyfingu sem beinir spjótum sínum af margþættri mismunum gagnvart fötluðu fólki. Myndlistin hefur alltaf heillað Jönu en hún gaf sér loks tíma til að læra undirstöðuatriðin fyrir nokkrum árum og hefur hún síðan þá verið hugfangin af vatnslitamálun. Mörg verk Jönu eru innblásin af reynslu hennar sem fötluð kona í ableískum heimi.

 

Sýningin er opin til og með 21. nóvember 2021.

Gallery - Meira en þúsund orð - Jana Birta Björnsdóttir