Listamannaspjall: Elinrós Blomquist Eyjólfsdóttir

Næstkomandi sunnudag 25.september kl. 15 mun Elinrós Blomquist Eyjólfsdóttir leiða gesti um sýningu sína Blómahaf í Duus safnahúsum ásamt sýningarstjóranum Gunnhildi Þórðardóttur. Á sýningunni sem var opnuð 1.september síðastliðinn, getur að líta málverk, teikningar og skissur, postulín og skartgripi. Verkin eru sum hver mjög stór olíumálverk sem áður voru til sýnis í Hofi á Akureyri fyrr á þessu ári en einnig eru minni verk og landslagsverk.

Myndheimur Elinrósar er draumkenndur en á sama tíma raunsær þar sem myndefnið er málað af mikilli nákvæmni og af raunsæi og virðingu fyrir efninu. Á myndunum lifnar gróðurinn við og hefur áferð hollensku meistaranna. Form og listræn fegurð myndanna hefur mikið gildi og er hægt að skynja lífrænan kraft þeirra. Elinrós hefur tekið þátt í sýningum víða bæði á Íslandi og erlendis meðal annars í Hofi, í Hafnarborg, Gallerí Horninu, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Eftir víðtækt nám í postulínsmálun hóf Elinrós nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands þar sem hún lauk námi úr málaradeild á árinu 1987. Árið 1995 lauk hún mastersnámi í málun frá Skidmore College í Bandaríkjunum. Hún hefur einnig sótt fjölda námskeiða erlendis og verið í gestavinnustofum. Elinrós er meðlimur í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og í Nordiska Akvarellsallskapet. Sýningin er opin alla daga kl. 12 – 17 og stendur til 6. nóvember.

Nánari upplýsingar veitir Elinrós Eyjólfsdóttir s. 8692026 og Valgerður Guðmundsdóttir s 8649190. Einnig eru upplýsingar á vefsíðunum www.elinros.com og á vefsíðu safnsins www.listasafn.reykjanesbaer.is