Listamanna- og sýningarstjóraspjall: Huglendur og Ferðalangur

Listamaðurinn Bjarni Sigurbjörnsson og sýningarstjórinn Helga Þórsdóttir

Á Ljósanótt, sunnudaginn 8. september kl. 15:00, verður listamanna- og sýningarstjóraspjall um sýningarnar Huglendur og Ferðalangur.
 
Listamaðurinn Bjarni Sigurbjörnsson mun taka á móti gestum og leiða þá um einkasýningu sína Huglendur.
Helga Þórsdóttir, safnstjóri og sýningarstjóri einkasýningar Kristins Más Pálmasonar, mun síðan leiða gesti um sýninguna Ferðalangur.
 
Verið velkomin!
Aðgangur er ókeypis
 
Huglendur
Með pentskúfi, en án fyrirhyggju, markar Bjarni fyrir striki eða stroku; sérhvert þessara ummerkja er vitnsburður um líkamlegt inngrip hans í veruleika myndflatarins, ekki tilraun til að draga upp „mynd“ af einhverju sem við teljum okkur þekkja í raunheimi. Í þeim gjörningi sem sérhvert verk er, renna líkamlegur veruleiki listamannsins – hreyfikraftur hans – og tjáning þessa sama krafts, saman við andlega kjölfestu hans og mynda heild sem er fullkomlega merkingarbær í sjálfri sér, þarfnast hvorki myndlíkinga né táknrænna útlistana til að lifa af það sem það sem sænski hönnuðurinn Sven Lundh kallaði „áreiti augans“.
Aðalsteinn Ingólfsson, sýningarstjóri.
 
Ferðalangur
Kristinn Már Pálmason býður áhorfendum að fylgja sér í „Undraland“ vöntunar, þar sem órar liggja í leyni með því að halda fjarlægð frá ytri táknmynd. Myndverk Kristins hefja sig upp yfir þekktan efnisheim okkar, en skapa þess í stað lögmál sem tákngerir vandlega hugarheim listamannsins í sjónræna geómetríu, sem er um leið vegurinn að einhverskonar andlegri frelsun, þar sem vöntunin í myndefninu er sköpuð meðvitað.
Helga Þórsdóttir, sýningarstjóri.
 
Sýningarnar eru styrktar af Safnasjóði og Stapaprenti.
Huglendur og Ferðalangur standa til 5. janúar 2025.