Listahátíð barna og ungmenna 2025

Listahátíð barna og ungmenna í Reykjanesbæ verður haldin í nítjánda sinn í Listasafni Reykjanesbæjar og Duus Safnahúsum 1. - 11. maí 2025.
 
Grunn- og leikskólar Reykjanesbæjar eru með formlega séropnun miðvikudaginn 30. apríl.
 
Fjölbrautaskóli Suðurnesja opnar sýningu í Bíósal þann 30. apríl kl. 15:00 - 17:00.
 
Þann 1. maí er opið fyrir almenning til og með 11. maí.
 
Komið við og sjáið sköpunargleði barna og ungmenna í Reykjanesbæ.
Aðgangur er ókeypis á meðan listahátíð stendur yfir, verið öll innilega velkomin!
 
Opnunartími listahátíðar:
Virkir dagar 9:00 - 17:00.
Helgar 11:00 - 17:00.
 
----
 
Orð eru ævintýri - Leikskólar Reykjanesbæjar
 
Allir leikskólar Reykjanesbæjar eru þátttakendur á Listahátíð og er bókin „Orð eru ævintýri“ kveikjan að þema sýningarinnar í ár, sem er staðsett í fremri sal Listasafnsins.
 
204 metrar á sekúndu - Grunnskólar Reykjanesbæjar
 
Þó að okkur finnist við vera kyrr, erum við á stöðugri hreyfingu. Hraði Reykjanesbæjar vegna snúnings jarðar er til dæmis 204 metrar á sekúndu eða 734 kílómetrar á klukkustund.

Sýningin 204 metrar á sekúndu er afrakstur samstarfs 5. bekkinga í grunnskólum Reykjanesbæjar við listamennina Arnar Ásgeirsson, Braga Hilmarsson, Deepu Iyengar, Hye Joung Park, Íris Maríu Leifsdóttur, Maríönnu Evu Dúfu Sævarsdóttur og Nínu Óskarsdóttur.

Á þeim þremur vikum sem samvinna þeirra stóð yfir, var hraði Reykjanesbæjar um það bil 370,138 kílómetrar, eingöngu vegna snúnings jarðar. Kílómetrafjöldinn er sambærilegur við 96% vegalengdarinnar til tunglsins eða níu ferðir í kringum hnöttinn. Á hverjum degi er hraði Reykjanesbæjar vegna snúnings jarðar 17,626 kílómetrar og raunveruleg vegalengd í geimnum sem Reykjanesbær fer á hverjum sólarhring er rúmlega 72 milljónir kílómetra. Svo að við erum sannarlega alltaf á hreyfingu og aldrei á sama stað.

Hugtakið hreyfing var viðfangsefni fimmtu bekkinganna í samvinnu þeirra og listamannanna. Stöðug hreyfing er eitthvað sem allt lífríki á sameiginlegt – hvort sem það erum við að innan eða utan; marglytta í sjónum við höfnina; brum á trjágróðri eða jörðin sjálf með öllu hennar innra iði. Listafólkið unga nálgaðist enda viðfangsefnið af þeirri forvitni, hugmyndaauðgi, áhuga og sköpunarkrafti sem einkennir opinn huga barna.

Listahátíð barna er nú haldin í Reykjanesbæ í 19. sinn og verk barna allt frá leikskólaaldri hafa verið sýnd í Listasafni Reykjanesbæjar af því tilefni. Í ár hlaut safnið styrk frá Barnamenningarsjóði í annað sinn vegna verkefnis sem felur í sér að börn í 5. bekk grunnskóla fá tækifæri til að vinna milliliðalaust með listamönnum á tímabili sem spannar þrjár vikur, að hugmyndavinnu og gerð verka fyrir sýningu í Listasafninu sem er stýrt af sýningarstjóra.

 
Útskriftarárgangur Listnámsbrautar hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja verða með sýningu á verkum sínum í Bíósal.
 
Listasafn Reykjanesbæjar hvetur alla bæjarbúa til að skoða sýninguna í Listasafni Reykjanesbæjar.
 
Listahátíð barna og ungmenna er hluti af BAUN, barna- og ungmennahátíð, og er afrakstur fjölbreytts listastarfs nemenda úr öllum leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar og af listnámsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja.