Listahátíð barna í Reykjanesbæ

Dýrin mín stór og smá

Skessan í hellinum býður til Listahátíðar barna í Reykjanesbæ í tólfta sinn
Fjölskyldudagskrá laugardaginn 6. maí

Listahátíð barna í Reykjanesbæ verður sett með pompi og prakt fimmtudaginn 4. maí í tólfta sinn. Hátíðin er samvinnuverkefni  Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins, allra 6 grunnskólanna, Tónlistarskólans, dansskólanna Bryn Ballett Akademíunnar og Danskompanís og listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Duus Safnahús undirlögð

Duus Safnahús verða undirlögð undir myndlistarsýningar leik-, grunn- og framhaldsskólans auk þess sem þar verður sýning á verkum eftir tónskáldið og myndlistarmannin Hafliða Hallgrímsson. Nemendur hafa unnið hörðum höndum stóran part úr vetri að verkefnum sínum sem líta dagsins ljós á hátíðinni en yfirskrift sýninganna er Dýrin mín stór og smá. Hægt er að fullyrða að þótt einstaka furðufugl hafi stundum ratað inn í Duus Safnahús hefur dýralífið þar aldrei verið jafn fjölbreytt og nú og þótt víðar væri leitað. Þar gefur að líta allt frá músum upp í gíraffa og ýmis konar furðuskepnur og má enginn láta þessar skemmtilegu sýningar framhjá sér fara.

Hæfileikahátíð grunnskólanna í Stapa

Föstudaginn 5. maí fer fram Hæfileikahátíð grunnskólanna í Stapa þar sem úrval stórglæsilegra árshátíðaratriða úr öllum grunnskólum bæjarins verða sýnd fyrir fullu húsi.

Frábær fjölskyldudagur

Laugardaginn 6. maí er svo boðið upp á skemmtilegan fjölskyldudag með alls kyns listasmiðjum og uppákomum og af því tilefni hrærir Skessan í hellinum í lummusoppu og býður gestum og gangandi upp á rjúkandi lummur.

Meðal þeirra verkefna sem unnið hefur verið að í tilefni hátíðarinnar er samtvinnun tónlistar og myndlistar út frá tónverkum og myndverkum tónskáldsins og myndlistarmannsins Hafliða Hallgrímssonar en hann færði Listasafni Reykjanesbæjar veglega myndlistargjöf nýlega sem varð kveikjan að þessu verkefni. Um eins konar gjörning verður að ræða laugardaginn 6. maí og verður listamaðurinn sjálfur viðstaddur þegar hann fer fram.

Dagskrá hátíðarinnar má nálgast á facebook síðunni Listahátíð barna í Reykjanesbæ og á vefsíðunni reykjanesbaer.is