Listahátíð barna - flottur fjölskyldudagur laugardaginn 7. maí

Markmið dagsins er að fjölskyldur geti átt saman skemmtilegar og skapandi stundir. Ókeypis aðgangur er á alla viðburði.

Fjölskyldujóga     

Bókasafn Reykjanesbæjar kl. 11:00

Farið verður yfir einfaldar öndunaræfingar, gerðar léttar og skemmtilegar jógaæfingar og að sjálfsögðu slökun í lokin. 
Jógakennarinn Anna Margrét Ólafsdóttir leiðir tímann. Allir hjartanlega velkomnir

Fjóla tröllastelpa á ferðinni    

Duus Safnahús og víðar kl. 12: 00 – 14:00

Besta vinkona Skessunnar, hún Fjóla tröllstelpa, lætur sig ekki vanta þegar börn og skemmtun eru annars vegar.
Fjóla verður á svæðinu, heilsar upp á börnin og býður upp á myndatöku og jafnvel eitthvað fleira.

Brasshópurinn Stuð

Duus Safnahús – Bátasalur  kl. 13:00

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar býður upp á brasshópinn Stuð sem vafalaust mun hljóma ótrúlega vel í Bátasalnum. Hópinn skipa Almar Örn Arnarson á kornett, Hilmar Daði Hilmarsson á trompet, Jóel Helgi Reynisson á kornett, Kolbrún María Sigurðardóttir á trompet, Ævar Týr Sigurðarson á básúnu auk Hörpu Jóhannsdóttur sem leiðir hópinn.
 

Gilitrutt og Bárður     

Duus Safnahús – Bíósalur kl. 14:00

Hinn frábæri leikhópur Lotta kemur í heimsókn með systkinin Gilitrutt og Bárð í fararbroddi sem bjóða okkar upp á ævintýraferðalag. Um er að ræða brot af því besta hjá Leikhópnum Lottu, hlaðið húmor, lögum og skemmtilegheitum. Á eftir er boðið upp á knús og spjall við börnin.

 

Listasmiðjur    
Á Duus torfunni kl. 12:00 – 16:00

 

Andlitsmálunarsmiðja                                                            Ath! Skráning -   Aldurslágmark 4 ára

Duus Safnahús – Stofan         

Stutt og spennandi námskeið fyrir foreldra og börn þar sem undirstöðuatriðin í andlitsmálun verða kennd. Kennt verður þremur hópum í einu sem hver samanstendur af 5 pörum. Fyrst er sýnikennsla fyrir foreldra/fullorðna sem fá svo að spreyta sig á börnunum. Hægt verður að skrá sig frá fimmtudeginum 5. maí á skráningarblað í afgreiðslu Duus Safnahúsa eða með tölvupósti á duushus@reykjanesbaer.is og einnig á námskeiðsstað ef eitthvað verður enn laust. Á hverju námskeiði, sem verður endurtekið fjórum sinnum yfir daginn, velur fólk á milli þriggja ólíkra verkefna.

Vinsamlegast virðið aldurslágmark. Athugið einnig. Ef skráðir eru ekki mættir þegar námskeið hefst verður plássinu úthlutað til annarra.

Námskeið 1        Kl. 12:00 – 12:45

Námskeið 2        Kl. 13:00 – 13:45

Námskeið 3        Kl. 14:00 – 14:45

Námskeið 4        Kl. 15:00 – 15:45

 

Brúðgerð Jóns Bjarna - komið með sokk að heiman

Frumleikhúsið         

Það er ekki í hverjum bæ sem brúðugerðarmaður býr. En hér í Reykjanesbæ eigum við einn, Jón Bjarna Ísaksson, sem stendur fyrir skemmtilegri smiðju þar sem hann leiðbeinir okkur um einfalda brúðugerð. Allt sem þarf er að mæta með gamlan sokk að heiman sem breytt verður í skemmtilega brúðu.

 

Múffusmiðja Kökulistar fyrir litla bakara og skreytingameistara        

Kaffi Duus

Kíktu við á kaffi Duus á milli kl. 12 og 16 og fáðu tvær múffur. Gefðu ímyndunaraflinu lausan tauminn og krúttaðu yfir þig í múffuskreytingum. Múffur, krem og skraut á staðnum.
Sýnikennsla kl. 12, 13, 14 og 15.    

Það er Kökulist (nýja bakaríið í Valgeirsbakaríi) sem sér smiðjunni fyrir hráefni og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Leiðbeinandi er Sara Dögg Gylfadóttir, ástríðubakari og umsjónarmaður Listaskóla barna til þriggja ára.

 

Hefurðu nokkuð rekist á tröll?         

Svarta pakkhúsið

Hefur þú nokkuð rekist á tröll? Hvernig líta þau út?
Eru tröll með eitt höfuð eins og við? Eða eru þau kannski með þrjá hausa?
Klæða þau sig í litrík sumarföt? Verða tröll í alvörunni að steini þegar sólin skín á þau?
Nú getur þú búið til þitt eigið ævintýratröll í Svarta pakkhúsinu, Hafnargötu 2.

Leiðbeinandi er myndlistarkonan Kristín Ragna Gunnarsdóttir.

 

Grafíksmiðja – þrykksmiðja          

Gamla búð (beint á móti Duus Safnahúsum)

Einföld listsmiðja fyrir alla fjölskylduna þar sem hægt er að vinna einþrykk með alls kyns efniviði og einnig hægt að búa til stimpla. Hægt að þrykkja á pappír og tau. Allt efni á staðnum.

Leiðbeinandi er myndlistarkonan Gunnhildur Þórðardóttir.

 

Sunnudagur 8. maí

Líf og fjör í Kirkjulundi

Kirkjulundur kl. 11:00

Börnin sem hafa verið í skapandi starfi í Keflavíkurkirkju í vetur munu syngja. Þá mun Harpa Jóhannsdóttir, tónlistarkennari, koma með Brassbandið sitt sem skipað er nemendum í 4.-7. svo það verður stuð.

Allir velkomnir.