Listahátíð barna 2013

Umhverfi okkar er ævintýri
„Listaverk í leiðinni“

Listahátíð barna

Listahátíð barna, sem nú verður haldin hátíðleg í 8. sinn, er samvinnuverkefni  Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins og allra 6 grunnskólanna. Hátíðin hefur vaxið og eflst með hverju ári og segja má að hún hafið orðið kveikjan að þeirri stóru barnahátíð sem nú er haldin í Reykjanesbæ þar sem virðing fyrir börnum, störfum þeirra og þörfum er höfð að leiðarljósi. Listsýningar tengdar hátíðinni eru staðsettar víða um bæjarfélagið. Verk leikskólabarnanna eru staðsett í sölum Duushúsa undir heitinu „Umhverfi okkar er ævintýri“ og verk grunnskólabarnanna eru staðsett í fyrirtækjum og verslunum undir heitinni „Listaverk í leiðinni.“ Hátíðin stendur yfir frá 8. – 26. maí.

Umhverfi okkar er ævintýri

Á hverju ári er ný yfirskrift valin fyrir sýningu leikskólabarnanna. Ýmis viðfangsefni hafa orðið fyrir valinu m.a. vináttan, hafið, himinninn og sögur og ævintýri. Í ár var ákveðið að taka fyrir nærumhverfi hvers leikskóla. Yfirskriftin leggur grunn að margvíslegu námi barnanna stóran hluta úr vetri. Kafað er ofan í viðfangsefnið frá ýmsum sjónarhornum og afraksturinn í ár birtist í skúlptúrum, ljósmyndum og textaverkum sem sett eru fram í formi listsýningar í samstarfi við Listasafnið. Úr verður fullskapaður ævintýraheimur sem lætur hvorki fullorðna né börn ósnortin.

Sýningin er opnuð með formlegum hætti í Duushúsum miðvikudaginn 8. maí kl. 10.30 að viðstöddum elstu börnum leikskólanna sem syngja þar söngva sérstaklega valda í tilefni sýningarinnar. Þessi viðburður markar einnig upphaf Barnahátíðar í Reykjanesbæ sem stendur hæst dagana 11. og 12. maí. Listahátíðin sjálf stendur hins vegar til 26. maí. Daglega á meðan á henni stendur koma leikskólarnir í heimsókn og standa fyrir stuttri skemmtidagskrá sem er öllum opin.

Listaverk í leiðinni

Yfirheiti sýningar grunnskólabarnanna felur í sér fjölbreytta staðsetningu á verkunum. Listaverkin eru líka af öllu tagi og þar má sjá gott yfirlit yfir vinnu vetrarins, margvísleg vinnubrögð og óþrjótandi sköpunargleði barnanna í bænum. Þarna var ekki unnið undir einu yfirheiti heldur fékk fjölbreytnin að ráða ferðinni og afraksturinn er ótrúlegur, við sjáum verk frá öllum grunnskólunum frá ýmsum árgöngum. Eins og heiti sýningarinnar gefur til kynna má sjá listaverkin víðs vegar um bæinn, á þeim stöðum sem fólk á leið um í ýmsum erindagjörðum s.s. í stórmörkuðum, á kaffihúsi, göngugötum o.fl. slíkum stöðum.

Sýningin er opnuð með formlegum hætti miðvikudaginn 8.maí kl. 13:00 í Krossmóa (Nettó) þar sem hægt verður að skoða sýnishorn frá öllum skólunum.

Sýning leikskólanna stendur til 26. maí en sýningar grunnskólanna til 12. maí og opnunartíminn fer eftir opnunartíma þeirra stofnunar sem viðkomandi sýning er staðsett í.