List án landamæra

Sumardaginn fyrsta, á listahátíðinni List án landamæra,  var opnuð samsýning nokkurra myndlistarmanna  í  Bíósal.  Þar  var  sýndur  afrakstur  samstarfs  þriggja  listamanna  Sossu Björnsdóttur  sem  hafði  boðið  til  samstarfs  með  sér  tveimur  ungum  listakonum,  þeim Hrafnhildi Gísladóttur sem jafnframt var félagi í Björginni og Amöndu Auði Þórarinsdóttur félaga  úr  Hæfingarstöðinni.  Leirlistakonan  Rut  Ingólfsdóttir  sýndi  einnig  verk  sín  og fjölbreytt  verk  frá  félögum  úr  Hæfingarstöðinni  voru  einnig  til  sýnis.  Þá  var  einum gestalistamanni boðið til þátttöku á þessari sýningu en það var Guðrún Bergsdóttir sem er löngu orðin þekkt fyrir einstakar útsaumsmyndir sínar. Við opnun þessarar sýningar var frumsýnt stutt myndband unnið af Ástvaldi Ragnari Bjarnasyni og Davíð  Óskarssyni sem fjallaði á gamansaman hátt um þau viðhorf sem mæta Ástvaldi í hans daglega lífi sökum fötlunar hans og þau skilaboð sem hann vill koma á framfæri vegna þess.

Annað listverkefni á hátíðinni var unnið af félögum úr Björginni undir stjórn myndlistarmannsins Guðmundar R Lúðvíkssonar og bar vinnuheitið „Strætóskýli fá andlitslyftingu.“ Hópurinn tók sig til og gaf nokkrum strætóskýlum í bænum nýtt líf með því að innrétta þau eins og stofur. Tilgangurinn var að vekja athygli á göfugu hlutverki þessara mikilvægu íveru- eða samkomustaða og gera þeim hærra undir höfði og um leið að krydda tilveruna aðeins. Uppátækið vakti mikla athygli og setti skemmtilegan svip á bæinn.