Sýningin opnaði 30. ágúst á Ljósanótt og var samstarfsverkefni Byggðasafnsins, Listasafnsins og vina og vandamanna Helga. Helgi S. Jónsson var fæddur 1910 í Hattardal í Álftafirði en flutti til Keflavíkur árið 1935 og stóð í fylkingarbrjósti ótrúlega margra félaga og málefna sem hann sinnti af miklum dugnaði og trúmennsku. Helgi var oft í fararbroddi, kveikti eldinn en fól hann svo öðrum er nýjar hugmyndir kölluðu hann til annarra verka. Hann var fjölhæfur listamaður, leikari, listmálari, myndskeri, vel ritfær og mjög mælskur. Hvað sem hann tók sér fyrir hendur vildi hann deila með öðrum og honum var einkar lagið að skapa jákvæða stemningu. Sá félagsskapur sem næst hjarta hans stóð var skátafélagið en hann var einn af stofnendum Heiðabúa. Eins og sönnum skáta sæmdi vildi hann leggja lið góðum málum og annar ríkur strengur í félagsskapnum var náttúran: í öræfafegurð fjallanna og kyrrð fann hann sig á sérstakan hátt heima. segir sr Björn Jónsson um Helga. Helgi S. Jónsson fluttist til Keflavíkur 25 ára gamall með dívaninn sinn og bókakassa í farteskinu. Hann hafði tekið virkan þátt í róttækum þjóðernisflokki sem barðist við kommúnista undir hakakrossfánum rétt áður en hann flutti til Keflavíkur.
Listaverkin 43 sem sýnd voru á sýningunni voru af ýmsu tagi, málverk, teikningar, litkrítarmyndir, kolateikningar og skúlptúrar. Þau voru unnin á árunum 1939-1978 og var safnað saman frá ýmsum áttum. Listasafnið átti nokkur verk og síðan var auglýst eftir verkum hjá vinum og vandamönnum og úr þeim var svo valið það sem sýnt var. Sýningarstjórinn var listakonan Sossa en hún þekkti Helga S. vel á sínum tíma. Sýningin var vinsæl af heimafólki og í tengslum við sýninguna var haldið málþing um listamanninn þar sem sagðar voru sögur af honum og alls kyns uppýsingum safnað.