Leiðsögn um sýninguna HULDUFLEY, skipa- og bátamyndir Kjarvals
Sunnudaginn 23. ágúst kl. 14:00 verður Aðalsteinn Ingólfsson sýningarstjóri og listfræðingur með leiðsögn um sumarsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, HULDUFLEY, þar sem er að finna úrval skipa- og bátamynda eftir Jóhannes Kjarval sem fengin hafa verið að að láni frá ýmsum aðilum, söfnum og einstaklingum. Þetta er jafnframt síðasta sýningarhelgin. Þessa helgi lýkur einnig sýningunni "Klaustursamur og filmuprjón - textíll í höndum kvenna," í Gryfjunni.
Í texta Aðalsteins Ingólfssonar í sýningarskrá kemur fram að Kjarval málaði skip frá fyrstu tíð og sjálfur sagði hann að þau hefðu kveikt löngun hans til að tjá sig í myndum. Þannig koma skip og bátar oftar fyrir í verkum hans en flest önnur mannanna verk. Þau tóku hins vegar margvíslegum breytingum á málaraferli hans og þróuðust frá því að vera eins konar skráning á útlitseinkennum togara og seglskipa yfir í stemmningsverk, síðar í táknmyndir um vegferð mannsins og loks jafnvel myndir með ívafi persónulegs uppgjörs við menn og málefni.
Nóbelskáldið Halldór Laxness segir t.a.m. eftirfarandi árið 1938 um skipamynd eftir Kjarval: „Þetta skip er aðeins hugsað skip, sál úr skipi eða svipur skips, ef vill, erindi þess í myndinni er ekki eftirlíking hlutar, heldur hitt: að tengja hugmyndir skoðarans við ákveðin efni, sem listamaðurinn vill tjá á leynilegan, undirvitaðan hátt. Raunverulegt skip vakir síst af öllu fyrir listamanninum.“
Leiðsögnin fer fram í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus safnahúsum, Duusgötu 2-8, og er öllum opin. Duus safnahús eru opin alla daga frá kl. 12-17 og aðgangur er ókeypis.