Næstkomandi laugardag, 25. janúar, verður opnuð sýning á nýjum verkum Svövu Björnsdóttur, myndlistarmanns í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum.
Svövu þarf vart að kynna; hún hefur um árabil verið meðal þeirra listamanna sem mest hafa lagt til endurnýjunar þrívíddarlistarinnar á landinu. Allt frá því hún sneri heim frá Þýskalandi við upphaf níunda áratugarins, eftir glæstan námsferil og margvíslegan framgang í München og víðar í Evrópu, hefur hún sent frá sér fjölda verka sem umbylt hafa viðteknum hugmyndum okkar um hlutverk og verkan þrívíddarmynda í nútíma umhverfi. Verkin hefur hún steypt úr lituðum pappírsmassa, sem hefur gert henni kleift að nýta sýningarrými – og rými almennt – með nýjum hætti. Þannig virkjar Svava ekki einasta gólf og veggi, heldur einnig loft, skúmaskot og afkima sýningarrýmisins. Með markvissri sviðsetningu verka sinna gerir hún sérhvert rými að heildstæðri innsetningu með dramatísku ívafi.
Formgerð Svövu er sömuleiðis óvenjuleg. Verk hennar minna í senn á vélarhluta, form náttúrunnar og lifandi verur, og eru jafn fjölbreytileg að inntaki. Lögun og litróf verkanna skipta hana miklu máli, en einnig léttleiki þeirra, samspil og ljóðrænn slagkraftur.
Fyrir sýninguna í Listasafni Reykjanesbæjar setti Svava saman innsetningu sem hún nefnir KRÍA/KLETTUR/ MÝ, og er tilraun til að skapa samnefnara fyrir ákveðna náttúruinnlifun. Og þó að þessi innlifun sé ekki bein endurspeglun aðstæðna hér í Reykjanesbæ, er eflaust margt í henni sem Suðurnesjabúar kannast við.
Sýningin er opnuð kl. 15.00.
Bil beggja
Þrívíddarverk Svövu Björnsdóttur fara bil beggja milli væntinga okkar og veruleikans. Og engu líkara en að listamaðurinn hafi gert það bil að sérstöku áhrifasvæði sínu. Verk Svövu koma okkur iðulega fyrir sjónir sem fjöldaframleiddir nytjahlutir, gegnheilir og varanlegir. Í reynd eru þau handgerðir listhlutir með sterku náttúruívafi, fisléttir og forgengilegir. Form sem virðast sprottin beint úr karllægum heimi vélsmiðjunnar eru, þegar grannt er skoðað, uppfull með hvelfd tilbrigði og fíngerð smáatriði kvendyngjunnar. Hefðbundið bil milli skúlptúra og málverka verður Svövu einnig frjósamur vettvangur tilrauna, þar sem tvívíðir fletir þrútna eða hlaupa upp í misfellur meðan þrívíð form glóa í litum sem sópa að sér birtu á hverjum stað.
Efniviðurinn tryggir athafnafrelsi listamannsins. Svava vinnur verk sín úr hráum pappírsmassa sem hún steypir í mót úr frauðplasti. Verkin drekka litina í sig meðan þau eru í mótun, eða þá að listamaðurinn sáldrar yfir þau litadufti á seinna stigi. Pappírinn gerir henni ekki einasta kleyft að bjóða birginn vana- og ranghugmyndum um eigindir og verkan þrívíddarverka, heldur tryggir hann henni alræði yfir sýningarrýminu á hverjum stað. Þrívíddarverk sem vegna umfangs og þyngdar væru alfarið upp á veggpláss og gólfrými komin, getur Svava hengt í hólf og gólf, hafið til flugs yfir hausamótum áhorfenda eða dreift eins og fisi um víðan völl. Þannig getur hún stjórnað upplifun áhorfenda af samastað verkanna, sjónarhorni þeirra á verkin, jafnvel yfirferð þeirra í rýminu.
Til þessa hefur Svava fyrst og fremst verið upptekin af því að nota verk sín til að koma á skapandi viðræðusambandi við menningartengda umgjörð þeirra hverju sinni, þ.e. hið manngerða rými, salinn, bygginguna. Sem hún gerir auðvitað af stakri smekkvísi og skáldlegri innlifun hér í Listasafni Reykjanesbæjar. Hins vegar er sjaldgæft að sjá í heilli sýningu frá hennar hendi eins skýra og heildræna skírskotun til náttúrunnar utan hins manngerða rýmis eins og í þeirri sem nú blasir við okkur. Yfirskrift sýningarinnar, KRÍA/KLETTUR/MÝ, segir okkur að verkin séu samnefnarar fyrir náttúruupplifun og kenndir þeim tengdar. Fríhangandi strýtur, strendingar á veggjum og risavaxnar fjaðrir á gólfi gætu sem best verið líkingamál fyrir einhvers konar jafnvægisástand skynjunarinnar, þar sem láð, lífverur og tíminn renna eitt augnablik saman í upphafna heild.
Enn og aftur sýnir það sig hve salur Listasafns hér í Duushúsum er þénug umgjörð þrívíddarverka af ýmsu tagi. Aðstandendur safnsins eru þakklátir Svövu Björnsdóttur fyrir listrænan metnað hennar og þrotlausa vinnu við að gera þessa sýningu að veruleika.