Laugardaginn 6. júní kl. 14.00 opnar í Gryfju Duus safnahúsa ein af sumarsýningum Listasafns Reykjanesbæjar sem fengið hefur nafnið „Klaustursaumur og Filmuprjón.“
Sýningin er sett upp í tilefni af hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna. Á henni eru textílverk úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar, sýnishorn af hannyrðum kvenna sem búsettar eru á svæðinu og hannyrðir í eigu Byggðasafns Reykjanesbæjar.
Nafn sýningarinnar vísar í breitt svið þeirra verka sem sjá má á sýningunni og má þar telja annars vegar aldagamla útsaumsaðferð og hins vegar nýlegt listaverk sem samanstendur af prjónuðum filmum. Þó flokka megi öll verk sýningarinnar sem textílverk fela þau í sér afar ólíkar nálganir, bæði hvað varðar hugmyndir, efnisval og úrvinnsluaðferðir, enda byggja þau ýmist á handverki, myndlist eða hönnun. Oft skarast þó mörkin milli þessarra ólíku þátta og útkoman getur komið skemmtilega á óvart.
Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir. Sýningin stendur til 23. ágúst. Duus safnahús eru opin alla daga frá kl. 12-17. Aðgangur ókeypis.