Listasafn Reykjanesbæjar telst stofnað árið 1994 en hefðbundin sýningarstarfsemi hófst þó ekki fyrr en árið 2003 þegar safnið fékk góðan sýningarsal til umráða, Listasalinn í Duushúsum. Þar hefur fjölbreytt sýningarhald farið fram síðan og víða verið leitað fanga eftir verkum. Safnið er eina listasafnið á Suðurnesjum og hefur þar af leiðandi ýmsum skyldum að gegna auk hefðbundinnar safnastarfsemi. Í stofnskrá safnsins er t.d. mikið gert úr menntunarhlutverki safnsins og sérstaklega tekið fram að því sé ætlað að efla þekkingu og áhuga Suðurnesjamanna á myndlist, barna jafnt sem fullorðinna. Gert er ráð fyrir að a.m.k. ein sýning á ári sé sérstaklega hugsuð með þarfir barna og ungmenna í huga, sýning sem ætlað er það mikilvæga hlutverk að auka víðsýni nemendanna og almenna menntun.
Sýningin Innistæða, verk í eigu Landsbankans, hefur verið í undirbúningi í tvö ár og var alltaf hugsuð sem sérstök skólasýning. Ekki er hægt að segja að einfalt hafi verið að koma henni á. Vandamál sem ekki verða rakin hér skóku Landsbankann og samfélagið allt og um tíma var ekki útséð um að þetta gæti gengið upp. En hér er sýningin þó komin, glæsileg verk úr safneign Landsbankans, raðað saman sem yfirlit íslenskrar listasögu. Heitið Innistæða minnir okkur á að góð listaverk eru eign sem erfitt er að gjaldfella, innistæða sem heldur gildi sínu á viðsjárverðum tímum, okkur öllum til heilla. Ég vil þakka stjórnendum Landsbankans og sýningarstjóranum Aðalsteini Ingólfssyni fyrir að gera þetta verkefni mögulegt.
Valgerður Guðmundsdóttir
Framkvæmdastjóri menningarsviðs