Ekki eru liðin nema 80 ár síðan unglingur vestur í Mykinesi í Færeyjum, Sámal Joensen að nafni, hóf að sanka að sér litaafgöngum sem umflakkandi listmálari frá Svíþjóð hafði skilið eftir sig og nota þá til að búa til málverk af umhverfi sínu: svörtu bergstáli, iðilgrænum lautum og stálgráum himni. Inn í þessa litasinfón bættist síðar hárauð blóðdreif grindardrápsins.
Hér eru markaðir megindrættir og litir færeyskrar myndlistar til þessa dags; trúnaður við stórbrotna náttúru eyjanna og tilvistarlegan grunn mannlífsins þar. Vissulega hefur þessi myndlist breyst og endurnýjast í tímans rás og þá sérstaklega með sundurgreinandi módernisma eftirstríðsáranna, einkum áhrifum Jacks Kampmann og Ingálvs av Reyni, en umfjöllunarefnið er sem fyrr samþætting landslags, veðurs og ímyndunarafls þeirra sem um pentskúfana halda.
Þessi myndlist væri tæpast við lýði í dag ef hún ætti sér ekki bakland meðal færeyskrar alþýðu. Enda er það opinberun Íslendingi, sem vanist hefur að sjá blóðlaust skreyti upp um alla veggi á reykvískum nútímaheimilum, að koma inn á færeysk heimili þar sem undantekningarlítið er að finna verk eftir helstu listamenn þeirra, m.a. þá sem taka þátt í þessari sýningu.
En kannski er þetta ekki alfarið jákvæð þróun. Fastmótuð hefð hefur tilhneigingu til að geta af sér ýmis afbrigði af íhaldsemi. Ljóst er að róttækar myndlistartilraunir þrífast illa í Færeyjum. Færeyskur myndlistarskóli, væri hann við lýði, mundi hugsanlega geta gegnt því hlutverki að laga myndlistarlega nýbreytni að þeim hefðum sem fyrir eru.
Þátttakendur í þessari sýningu eru afar ólíkir innbyrðis, þótt allir sæki þeir innblástur í sömu lind. Amariel Norðoy málar tilbrigði um færeyskt frum-landlag, þar sem stöðug víxlverkun á sér stað milli lands, hafs og himinskauta. Kári Svensson og Eyðun av Reyni draga færeyska náttúru saman í eins konar “yfirnáttúru” þar sem rúmast heill hafsjór tilfinninga. Torbjörn Olsen notar gamla kúbíska grindverkið sem rannsóknartæki í tilraunum um landslag, hús og mannlíf og Bárður Jákupsson brýst undan hefðbundinni túlkun náttúrunnar með með “lóðréttu” landslagi sínu, í senn fjölskúðugu og mikilfenglegu. Yngstur þátttakenda er Össur Mohr, sem vinnur með hugmyndina um hið “erkitýpíska” landslag í færeysku samhengi.
Það var mér sönn ánægja að fá að umgangast þessa listamenn og stuðla að sýningu á verkum þeirra í Listasafni Reykjanesbæjar.
Aðalsteinn Ingólfsson