HULDUFLEY, Sýning á skipa- og bátamyndum Kjarvals er sumarsýning Listasafnsins

Á sumarsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, HULDUFLEY, er að finna úrval skipa- og bátamynda Jóhannesar Kjarvals sem Aðalsteinn Ingólfsson, sýningarstjóri, hefur fengið að láni frá ýmsum aðilum, söfnum og einstaklingum.

Það er einkar vel við hæfi að sýna þessi verk Kjarvals í Listasafni Reykjanesbæjar, í sjávarplássinu Keflavík, þar sem þau kallast á við bátalíkön völundarins Gríms Karlssonar í fremri sal.

Í texta Aðalsteins Ingólfssonar um sýninguna kemur fram að Kjarval málaði skip frá fyrstu tíð og  sjálfur sagði hann að það hefðu einmitt verið þau sem kveiktu löngun hans til að tjá sig í myndum. Þannig koma skip og bátar oftar fyrir í verkum hans en flest önnur mannanna verk. Þau tóku hins vegar margvíslegum breytingum á málaraferli hans og þróuðust frá því að vera eins konar skráning á útlitseinkennum togara og seglskipa yfir í stemmningsverk, síðar í táknmyndir um vegferð mannsins og loks jafnvel myndir með ívafi persónulegs uppgjörs við menn og málefni.

Nóbelskáldið Halldór Laxness segir t.a.m. eftirfarandi árið 1938 um skipamynd eftir Kjarval: „Þetta skip er aðeins hugsað skip, sál úr skipi eða svipur skips, ef vill, erindi þess í myndinni er ekki eftirlíking hlutar, heldur hitt: að tengja hugmyndir skoðarans við ákveðin efni, sem listamaðurinn vill tjá á leynilegan, undirvitaðan hátt. Raunverulegt skip vakir síst af öllu fyrir listamanninum.“

Sýningin Huldufley verður opnuð í Duushúsum, Duusgötu 2-8, laugardaginn 6. júní kl. 14 og eru allir velkomnir. Sýningin er opin alla daga frá kl. 12-17 og hún stendur til 23. ágúst.