Huldufley

Skipa- og bátamyndir Kjarvals

Á sumarsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, HULDUFLEY, er að finna úrval skipa- og bátamynda Jóhannesar Kjarvals sem Aðalsteinn Ingólfsson, sýningarstjóri, hefur fengið að láni frá ýmsum aðilum, söfnum og einstaklingum.

Það er einkar vel við hæfi að sýna þessi verk Kjarvals í Listasafni Reykjanesbæjar, í sjávarplássinu Keflavík, þar sem þau kallast á við bátalíkön völundarins Gríms Karlssonar í fremri sal.

Í texta Aðalsteins Ingólfssonar um sýninguna kemur fram að Kjarval málaði skip frá fyrstu tíð og  sjálfur sagði hann að það hefðu einmitt verið þau sem kveiktu löngun hans til að tjá sig í myndum. Þannig koma skip og bátar oftar fyrir í verkum hans en flest önnur mannanna verk. Þau tóku hins vegar margvíslegum breytingum á málaraferli hans og þróuðust frá því að vera eins konar skráning á útlitseinkennum togara og seglskipa yfir í stemmningsverk, síðar í táknmyndir um vegferð mannsins og loks jafnvel myndir með ívafi persónulegs uppgjörs við menn og málefni.

Nóbelskáldið Halldór Laxness segir t.a.m. eftirfarandi árið 1938 um skipamynd eftir Kjarval: „Þetta skip er aðeins hugsað skip, sál úr skipi eða svipur skips, ef vill, erindi þess í myndinni er ekki eftirlíking hlutar, heldur hitt: að tengja hugmyndir skoðarans við ákveðin efni, sem listamaðurinn vill tjá á leynilegan, undirvitaðan hátt. Raunverulegt skip vakir síst af öllu fyrir listamanninum.“

Sýningin Huldufley verður opnuð í Duushúsum, Duusgötu 2-8, laugardaginn 6. júní kl. 14 og eru allir velkomnir. Sýningin er opin alla daga frá kl. 12-17 og hún stendur til 23. ágúst.

HULDUFLEY: Skipa- og bátamyndir Kjarvals

Árið 1938 segir Halldór Laxness eftirfarandi um skipamynd eftir Jóhannes Kjarval: „Þetta skip er aðeins hugsað skip, sál úr skipi eða svipur skips, ef vill, erindi þess í myndinni er ekki eftirlíking hlutar, heldur hitt: að tengja hugmyndir skoðarans við ákveðin efni, sem listamaðurinn vill tjá á leynilegan, undirvitaðan hátt. Raunverulegt skip vakir síst af öllu fyrir listamanninum.“

Skip koma oftar fyrir í verkum Kjarvals en flest önnur mannanna verk. Sjálfur hélt hann því fram að skipin, ekki landslag, og þá helst póstskip og Fransarar sem sigldu úti fyrir Meðallandinu, hefðu orðið til þess að kveikja með honum löngunina til að tjá sig í myndum. „Þegar ég var að læra að skrifa, þá teiknaði ég skip í aðra hverja línu“, sagði hann löngu síðar. Og stuttu eftir að hann lærði að skrifa var hann munstraður til fiskibragða á opnum róðrabátum.

Skipamyndirnar sem Kjarval gerir fyrst í stað, eða allt til þess að hann hóf formlegt myndlistarnám í útlöndum, eru frásagnarlegs eðlis fyrst og fremst,  skráning á útlitseinkennum togara og seglskipa, fréttaflutningur af komu stórra farþegaskipa frá útlöndum. Svo koma innfjálgar miðnætur-og blíðviðrisstemmningar, þar sem skip hafa ekki eigingildi heldur eru sýnd sem mótvægi: aðnjótendur undursamlegrar blíðunnar.

Við kynni Kjarvals af Turner árið 1911-12 lærist honum að virkja skip til táknrænnar frásagnar. Í mynd eins og Hollendingurinn fljúgandi (1912) verður stórbrotið seglskipið tákn upphafningar og samsömunar manns og náttúru, annars staðar verður það tákn fyrir vegferð mannsins um úthöf ævinnar, og um leið lokahnykk þess ferðalags, flutninginn á annað tilverustig. Skipið verður farkosturinn á vit ævintýranna eða hins óþekkta (Ofurlítil duggan) eða tákn afdrifaríkra umbreytinga í lífi mannsins. Stundum er gjörvöll þjóðmenningin undir, sjá hin mörgu víkingaskip listamannsins. Og í stórbrotinni mynd eins og Ævintýri á hafinu (1948) er örlagaskipið sýnt sem óaðskiljanlegur hluti þeirrar heildrænu veraldarsýnar sem Kjarval hafði komið þá sér upp. Ekki má heldur gleyma allt að því súrrealískri kímnigáfu hans, sjá myndina af Gullfossi á Þingvöllum. Loks má nefna skipamyndir listamannsins með ívafi persónulegs, oft nokkuð svo torræðs, uppgjörs við menn og málefni.

Það er vel við hæfi að sýna úrval skipa-og bátamynda Kjarvals í Listasafni Reykjaness í sjávarplássinu Keflavík, þar sem þær kallast á við bátalíkön völundarins Gríms Karlssonar. Samanburður leiðir í ljós hve nákvæmlega Kjarval þekkti sín skip; jafnvel þar sem hann fer með himinskautum í túlkun sinni á útliti þeirra, eru þau í grundvallaratriðum rétt byggð og þeir partar sem máli skipta á réttum stað.

Listasafn Reykjaness þakkar þeim fjölmörgum aðilum, bæði söfnum og einkaaðilum, sem sáu sér fært að lána þekktar myndir og uppáhaldsmyndir til sumarsýningarinnar. Nokkrar þessara mynda eru orðnar býsna sjaldséðar og í nokkrum tilfellum eru þetta síðustu forvöð að sjá þær hér á Íslandi í bráð.

Aðalsteinn Ingólfsson