Horfur

(Jaðarsettur) miðaldra kalmaður staðsettur í Höfnum reynir að útskýra fyrir sér ástand heimsins og hverjar horfunar séu.
Í gegnum miðla myndlistarinnar þreifar hann á og gerir tilraun til að skilja og læra meira um þessa veröld sem við byggjum.

Í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum er boðið upp á einkasýningu Helga Hjaltalíns Eyjólfssonar sem búsettur er í Höfnum. 

Helgi (f. 1968) kláraði listasvið Fjölbrautaskólans í Breiðholti og sótti síðan nám við Myndlista-og handíðaskóla Íslands 1988-91, Kunstakademie Dusseldorf 1991-92, AKI í Hollandi 1992-94 og San Francisco Art Institute 1994-95. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi jafnt hér heima sem erlendis síðan á námsárunum. Helgi rak sýningarrýmið 20 fermetrar um hríð og hefur sinnt ýmsum störfum tengdum myndlist svo sem stjórnarsetu í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík og Nýlistasafninu, verið í sýningarnefndum og starfað við kennslu. Verk Helga eru í safneign helstu safna hér heima og í eigu safnara og safna erlendis.

Sýningin stendur til 5. nóvember og opið er alla daga frá kl. 12-17.

Horfur í náinni framtíð. Hugmynd um buskann

Ég hugsa um flísarnar í krossi Krists. Þær sem hafa verið ættfærðar til krossins eru svo margar, að úr þeim mætti smíða veglega kirkju. Höfuðdómkirkju veraldar, væri hægt að ímynda sér. 

Hægt væri að reisa heilan Kínamúr úr þeim, segir á einum stað.

Þannig má segja að flísarnar séu ekki raunverulegar lengur, heldur aðeins til í yfirfærðri merkingu, yfirteknar af markaði og eftirspurn, eins og fjármálaheimurinn segir, og meinar að það sé hinn eini sanni mælikvarði alls.

Flísin sem táknmynd: 

  1. Táknmynd um krossfestinguna og þjáningar Krists á krossinum.
  2. Táknmynd um fjöldann sem krefst þess að Kristur sé krossfestur og ber síðan byrði þeirrar kröfu sinnar um aldir og er því raunverulega í sömu stöðu og Júdas með silfurpeninga sína.
  3. Táknmynd um fjármálasýslu, yfirboðara og valdníðslu. Einnig hugmyndina um að hægt sé að kaupa sér syndaaflausn og versla með hana.

p.s.

Heyrst hefur af flísum úr krossi Krists á Íslandi. Það má hugsa sér að hin fræga, mikla og stóra dómkirkja í Skálholti hafi verið smíðuð úr flísum úr krossi Krists í einhverjum skilningi.

Þetta fer um hug minn þegar ég hugsa um myndlist Helga Hjaltalín og horfi í árhringi trés. Það er skúlptúr eftir hann. Skúlptúrinn er ekki þverskurður af neinu einu sérstöku tré, með upplýsingar um sögu þess og umhverfi, sem sérfræðingar rýna í. Þetta er þverskurður af tré sem er saga allra trjáa og flísar af öllum krossum og veðurfarslýsingum veraldar. Formfagur og haganlega smíðaður hringur. Hver árhringur límdur saman og geirnegldur úr tilfallandi afgangsspýtum og flísum, ár eftir ár, rennt saman og límt í eitt fast form.

Næst árhringnum, þverskurði trésins, er rúmlega mannhæðarhá baðstofuklukka, smíðuð af sama hagleik og natni. Það er ekkert gangverk inni í henni, en þar sem innvolsið er venjulega, er haglabyssa eða riffill. Það er eins og veiðimaðurinn hafi lagt hana/hann frá sér, svo hún/hann væri ekki fyrir allra augum. Feluleikurinn með byssuna verður einhvers konar kólfur, sem er hljóðlátur en getur haft talsvert með tíma og umhverfi að gera, ef þannig skipast.

Herbergið er klætt brjóstvörn með sömu efniskennd og skúlptúrarnir. Á brjóstvörninni hanga tómir rammar.

Herbergið er eins og biðstofa fyrir eitthvað. Núllpunktur milli framtíðar og fortíðar. Eitt bil í tíma. Upphafspunktur einhvers, einhvern tíma í framtíðinni.

Þegar ég skrifa þetta er ég staddur á Núpi í Dýrafirði, í íbúðarhúsi síðustu ábúenda jarðarinnar, sem nú tilheyrir afkomendum þeirra. Húsið ber enn merki bændanna. Bækurnar í bókaskápnum eru mikið til héraðsbækur og þjóðlegur fróðleikur. Jafnvel föt síðustu ábúenda eru enn í fataskápnum. Á veggjunum eru myndir af ábúendum og fjölskyldu ásamt handmálaðri ljósmynd af umhverfinu. Líka handofið röndótt teppi. Drottinn blessi heimilið. Eins konar fortíðarniður í pípunum. Þetta er tilfærsla á rými.

Utan við stofu og eldhúsglugga í fimmtíu metra beinni línu til vesturs er fánastöng máluð fagurlega í íslensku fánalitunum. Fánastöngin er áhugaverð og sjónrænt séð falleg og eiginlega listaverk, þó hún hafi ekki verið gerð sem slík.

Mér varð hugsað til fánastanga Helga.

Í 90 gráðu horni til suðurs frá fánastönginni, miðað við línuna frá bóndanum, um það bil jafn langt, eru dyr á bústað prestsins. Húsið heitir Hlíð. Húsið er gamalt og er á minjaskrá og til að sjá, líkt dúkkuhúsi. Þessi samsetning minnir líka svolítið á verk Helga. Húsin saman með hornréttan punkt í fánastönginni verða að umhverfisverki í magnaðri náttúrunni.

Eins og gerist í samfélagsmyndbyggingu, hittir maður konuefni sitt og saman hreiðra þau um sig þar sem þeim líst svo á að sé byggilegt. Í þessu tilfelli kom bóndinn til konu sinnar og þau byggja sér bú. Þegar brauðið í sveitinni losnar kallar hann á prestinn bróður sinn. Saman koma þeir með nýjan hjartslátt í sveitina, stúkan Gyða, íþróttir og skóli fyrir uppbyggingu andans.

Presturinn hafði hrifist að hugmyndum Gruntvigs þegar hann var í guðfræði í Kaupmannahöfn. Gruntvig byggði sjálfur hugmyndir sínar á rómantíkinni og hugmyndum frönsku byltingarinnar. Hann kennir að mennskan komi fyrst, síðan kristnin. Hann vill frekar lifandi orð en bókstafinn. Gruntvig dáist að íslenskum fornbókmenntum og náttúrunni. Menntun handa öllum og bjartan sjóndeildarhring. Jafnrétti kynja og frelsi og bræðralag fyrir alla. Hann missti hempuna fyrir hugmyndir sínar.

Þetta var allt efni í hinn nýja ungmennafélagsanda. Fallegar hugmyndir og nauðsynlegar í tímanum.

Þrátt fyrir fegurðina og drifkraftinn og framtíðarsýnina, jafn undarlegt og það virðist, er líka undirliggjandi ógn. Ekki á þessum stað sýnist mér, en í röngu samhengi, eins og sagan sýnir, geta jafnvel fegurstu hugmyndir orðið ógnvekjandi. Jafnvel frelsishugmyndir er hægt að steypa í sjálfhverft fast mót. Frelsi, jafnrétti og bræðralag, getur verið steypt í mót sérhópa. Þarna einhvers staðar er gegnumgangandi þráður í verkum Helga. Kyrrstaða milli ógnar, sögu og fegurðar. 

Vatnsbyssusafn og kvenmannsveski fagurlega hönnuðu í harðan við. Baðstofuklukkan, brjóstvörnin og tómir rammarnir og byssan og svo framvegis.

Falleg fánastöng og "High score" körfuboltastöng eftir David Hammond hafa ekki ólíka tengingu. Stangir Davids eru skreyttar með Afríkumunstri upp að körfuboltahringnum og eru mjög háar, svo erfitt getur verið að koma boltanum í hann. Hugmyndin er að þar felist draumur svertingja í Bandaríkjunum, sem dregur þá frá námi og annarri uppbyggjandi iðju. Falleg verk eins og fánastöngin, með aðdráttarafl sjálfra sín, eins og sírenurnar í Ódysseifskviðu.

Mér dettur líka í hug snjóboltaperformans sama listamanns. Hann stillti upp snjóboltum á teppi eins og götusölumenn í New York og var með þá til sölu á mismunandi verðum eftir stærð.

Og upptrekkt strípuð leikföng  Mike Kelly. Mechanical Toy Guts 1991 - 2012. Veröld sem er, var og verður. Hin fagra veröld Stefan Sweig sem var. Hugmyndin um fallegt samfélag, þar sem aldrei verður stríð aftur. Strípuðu leikföngin eru rúin öllu aðdráttarafli kynjadýra og skrauts og upptrekkt innvolsið er það eina sem spólar um í sýningarsalnum. 

Hús sem eru byggð og teiknuð eins og tákn, límd saman á alls konar pappír, allt frá besta vatnslitapappír yfir í munnþurrkur. Aftur eins og þverskurður trés. Myndir af bílum og hermönnum. Prestur og fánastöng. Fallegt handbragð sem þrátt fyrir allt ber með sér lím sögu og viðleitni til að skilja allt betur. Táknmerki jaðarhópa og hið fasta og ófrávíkjanlega mót.

Ætli þetta sé ekki bara nóg fyrir upphaf að einhverju öðru einhvern tíma í framtíðinni.

Horfur í náinni framtíð.

Hugmynd um buskann.

 

            Helgi Þorgils Friðjónsson