Holdtekja

Þann 22. október var opnuð sýning á verkum Guðnýjar Kristmanns, listmálara. Guðný hefur vakið athygli fyrir litríka, kröftuga og tilfinningalega hlaðna málaralist. Rætur myndlistar Guðnýjar liggja í landslagstengdri abstraktmyndlist Kristjáns Davíðssonar, súrrealisma og evrópskum og amerískum abstrakt-expressjónisma. Málaralist hennar einkennist af líkamlegum skilningi á sköpunarferlinu, sem hún líkir beinlínis við hina „frumstæðu hvöt að skapa líf", með tilheyrandi nautn, fullnægju og sársauka. Þar leggur Guðný m.a. til grundvallar kenningar Derridas og Nietzsches um tengslin milli sköpunar og kynferðis- og kynferðisathafna. Um leið tekur hún undir hugmyndir tilvistarspekinga um málverkið sem vettvang þar sem listamaðurinn endurskapar sjálfan sig í hverju verki.

Holdtekja

Málaralist Guðnýjar Kristmanns varð til á lokaskeiði hins nýja expressjónisma, eða „nýja málverks“, upp úr miðjum tíunda áratugnum, þegar áhugi ungra listmálara á tilvist mannsins, rammri pólitík og annmörkum félagslegs veruleika vék smám saman fyrir opnari, margræðari og beinlínis furðulegri málaralist, oft á mörkum veru og óveru. Þannig fer listasagan í hringi, því guðfeður þessarar myndlistar voru gömlu brýnin Kandinsky, áhugamaður um andlega merkingu óheftra náttúrukrafta, töframaðurinn Klee sem býr til furðulega atburði til hliðar við veruleikann og súrrealistarnir sem töldu brýnt að draga fram úr sálarkirnunni duldar kenndir og lesti mannsins: láta allt flakka. Loks ber að nefna abstrakt-expressjónistana, bæði mýtumálarana amerísku og norrænu Cobra-málararana, sem deildu áhuga á einlægri, upprunalegri og bernskri tjáningu. Það sem framar öðru sameinar þessi viðhorf til listsköpunar er svo aftur gamalkunn tilvistarleg hugmynd um málverkið sem vettvang, þar sem listamaðurinn endurskapar sjálfan sig í hverju verki.

Í krafti augsýnilegra hæfileika sinna hefði Guðný hæglega getað leiðst út í framleiðslu áhæfilega villtum og litríkum landslagsabstraksjónum, sannkallaðri híbýlaprýði. Þess í stað hefur málaralistin orðið henni verkfæri til opinskárri sjálfsskoðunar en við eigum að venjast af íslenskum listmálurum. Undirrót myndlistariðkunar hennar er vissulega hin sjálfsprottna hugmynd og sú hrynjandi forma og lita sem hún leiðir af sér. Og eins og súrrealistar leggur hún mikið upp úr draumum sínum og óvæntum uppákomum. Þessar hugljómanir, drauma og uppákomur virkjar hún síðan í myndum sínum, milliliðalaust og án forteikningar.

Það er hins vegar þessi „virkjun“, hvernig Guðný stýrir innblæstri sínum og endurskapar sjálfa sig í myndum sínum, sem sætir nokkrum tíðindum, a.m.k. í íslensku samhengi. Nokkur ár eru síðan að hún lét þau boð út ganga að listsköpun og sköpun lífs - getnaður, meðganga og fæðing -  væru í hennar augum greinar á sama meiði. Í framhaldinu hefur orðræða hennar um myndlist einkennst æ meira af erótísku líkingamáli. Lönguninni til að skapa er lýst eins og uppsöfnuðum ástarbríma, listamaðurinn talar um hana sem „ljúfa tilfinningu sem kviknar í líkamanum“, henni fylgir „löngun til að hverfa inn í sjálfa sig“, sem er augljós vísan í samræði. Ferlinu lýkur síðan með fullnægingu sköpunarinnar og tómleikatilfinningunni sem stundum fylgir í kjölfarið: „Efinn (læðist) að, þegar hugurinn tekur að skoða nýjar leiðir, efast um þær sem farnar hafa verið.“

Í hvatavæðingu listsköpunarinnar hefur Guðný ýmislegt fyrir sér, m.a. kenningar þeirra Derrida og Nietzsche um tengslin milli sköpunar og kynferðis og þá með sérstakri vísan til þess sköpunarferlis sem á sér stað í líkama konunnar frá og með fullnægingu og getnaði. Í rauninni hefði Guðný líka getað dregið Foucault inn í þá umræðu, þar sem hann lagði sérstaka áherslu á þýðingu kynferðislegra athafna, og þá sérstaklega athafna sem sveipaðar hafa verið einhvers konar bannhelgi; þær væru í senn hluti af frelsisbaráttu sjálfsins í viðjum aðþrengjandi samfélags og helsta forsenda persónulegrar listsköpunar sem stæði undir nafni.

Nú er Guðný langt í frá eina listakonan sem starfað hefur undir þessum merkjum. Í seinni tíð hafa sjónir manna beinst að ítrekuðum kynferðislegum vísunum í myndlistarverkum bresku listakvennanna Tracy Emin og Söru Lucas. Samanburðurinn á verkum þessara listakvenna og Guðnýjar er býsna fróðlegur. Í verkum þeirra bresku er oftast að finna kaldhamraða afbökun kynlífsins, ef ekki beinlínis andstyggð á því, á stundum með ívafi groddalegrar kímni. Verk Guðnýjar eru hins vegar rómantísk hylling fýsnarinnar í víðasta skilningi, vettvangur þar sem hið karllæga og kvenlæga mætast í fullri sátt við það sem skáldið D.H. Lawrence kallaði „hið dýrslega í manninum“. Litrófið er funheitt, línur titra af innbyrgðri spennu, þrútin sköp kallast á við þrútin reðurform, hvorttveggja geta svo af sér ókjör annarra lífrænna forma í linnulausri orgíu sköpunar um allan myndflötinn. Í fyrsta sinn er áferð ríkjandi þáttur í mörgum mynda hennar og hefur fremur erótískt vægi en myndbyggingarlegt; strigaflöturinn líkist engu meir en hörundi sem strokið er blíðlega sitt á hvað, milli þess sem það er strýkt eða rispaðtil blóðs í áfergju fýsnarinnar.

Um leið missir Guðný aldrei sjónar á undirliggjandi fáránleika hvatalífsins. Því eru myndir hennar fyndnar ofan á allt annað. Tvíkynja skapnaðir iða af ófullnægju, kynfæri karls og konu taka á sig myndir grátbroslegra skrýmsla og í a.m.k. eitt skipti hrópar mynd upp yfir sig í hita leiksins. En þessi fáránleiki er einnig forsenda hinnar einu og sönnu munúðar, innileika sem sprottinn er af dýpstu rótum mannlegrar tilveru.