Hjartastaður
Þingvallamyndir úr safni Sverris Kristinssonar
Stjórn Listasafns Reykjanesbæjar ákvað snemma á síðasta ári að vera með sýningu í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands. Aðalsteinn Ingólfsson sýningarstjóri og hugmyndafræðingur verkefnisins hófst strax handa við undirbúninginn og eru honum færðar kærar þakkir fyrir vel unnið starf. Allt myndefnið á sýningunni skyldi tengjast Þingvöllum með einum eða öðrum hætti, þar sem sá staður skipar sérstakt hlutverk í hjarta þjóðarinnar og var ætlunin með verkefninu að velta fyrir sér gildi þessa helgasta staðar Íslendinga fyrir þjóðarvitundina og þá um leið áhrifum Þingvalla á myndlist þjóðarinnar. Leitað var til safnarans Sverris Kristinssonar og var hann viljugur að lána listasafninu nokkur verka sinna og eru honum færðar sérstakar þakkir fyrir höfðingsskapinn. Meðal listamannanna sem eiga verk á sýningunni eru margir helstu málarar Íslendinga á tuttugustu öldinni s.s. Þórarinn B. Þorláksson, Jóhannes Kjarval, Ásgrímur Jónsson og Jóhann Briem og var það mikill fengur að komast í verkin hans Sverris. Einnig var leitað til Birgis Hermannssonar lektors við Háskóla Íslands og hann beðinn um að gera grein fyrir tengslum íslenskrar þjóðmenningar og Þingvalla í sýningarskránni. Honum eru einnig færðar kærar þakkir.
Samhliða sýningunni mun safnið standa fyrir fjölda viðburða í samvinnu við ýmsa aðila s.s. Byggðasafn Reykjanesbæjar, Leikfélag Keflavíkur, Sögufélag Suðurnesja og Kvennakór Suðurnesja. Þessir viðburðir verða bæði af sagnfræðilegum og myndlistarlegum toga og sömuleiðis munu tónlist og bókmenntir koma við sögu. Í heild sinni er verkefnið hugsað fyrir almenning, sérstaklega skólahópa og fjölskyldur og er þetta framlag Reykjanesbæjar til fullveldishátíðarinnar 2018. Að síðustu vil ég koma þökkum til þeirra sem styrktu verkefnið fjárhagslega en það eru Uppbyggingarsjóður Suðurnesja og Fullveldissjóður íslands.