Listahátíð barna, sem nú er haldin hátíðleg í 6. sinn, er samvinnuverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og allra 10 leikskóla Reykjanesbæjar og allra 6 grunnskóla Reykjanesbæjar. Hátíðin hefur vaxið og eflst með hverju ári og segja má að hún hafi orðið kveikjan að þeirri stóru barnahátíð sem nú er haldin í Reykjanesbæ þar sem virðing fyrir börnum og störfum þeirra og þörfum er höfð að leiðarljósi. Listsýningar og listasmiðjur tengdar hátíðinni eru staðsettar víða um bæjarfélagið. Verk leikskólabarnanna eru í öllum sölum Duushúsa undir heitinu "Himingeimurinn" og verk grunnskólabarnanna eru í fyrirtækjum og verslunum úti um allan bæ undir heitinu " Listaverk í leiðinni."
Himingeimurinn
Yfirskrift sýningar leikskólabarnanna í ár er Himingeimurinn og á öllum leikskólum hafa börnin fræðst um himininn með margvíslegum hætti. Alls kyns listaverk hafa litið dagsins ljós, æfðir hafa verið nýir söngvar um himininn og allt sem þar er á ferli. Hápunkturinn er sjálf listahátíðin sem sett verður með formlegum hætti í Duushúsum síðasta vetrardag, miðvikudaginn 20. apríl kl. 10.30. Það er vel við hæfi að sá viðburður verður einnig upphafsatriði Barnahátíðar í Reykjanesbæ.
Á listahátíðinni verður leitast við að skapa himingeim í Listasal Duushúsa með öllum þeim undrum sem þar finnast og til þess notuð listverk nemendanna sjálfra. Lista- og vísindasmiðja verður starfrækt í Bíósal sem stendur öllum bæjarbúum opin og þar verða einnig myndlistarverk frá öllum leikskólunum. Dagana 26. aprí - 6. maí koma leikskólarnir í heimsókn og standa fyrir stuttri skemmtidagskrá sem er öllum opin.
Í Dusuhúsum er opið virka daga frá kl. 12.00-17.00 og um helgar frá kl. 13.00-17.00. Sýningin stendur til 8. maí
"Listaverk í leiðinni"
Yfirheiti sýningar grunnskólabarnanna felur í sér fjölbreytta staðsetningu á verkunum. Listaverkin eru líka af öllu tagi og þar má sjá gott yfirlit yfir vinnu vetrarins , margvísleg vinnubrögð og óþrjótandi sköpunargleði barnanna í bænum. Þarna var ekki unnið undir einu yfirheiti heldur fékk fjölbreytnin að ráða ferðinni og afraksturinn er ótrúlegur, við sjáum verk frá öllum grunnskólunum og öllum árgöngum. Einsog heiti sýningarinnar gefur til kynna má sjá listaverkin á ýmsum stöðum í bænum og einmitt á þeim stöðum sem fólk á leið um í ýmsum erindagjörðum. Í ár eru verkin staðsett í Kjarna fyrir framan bókasafnið, í Krossmóa fyrir framan Nettó og á kaffihúsinu Kaffitár. Sýningin stendur frá 20. apríl til 8. maí og opnunartíminn fer eftir opnunartíma þeirrar stofnunar sem viðkomandi sýning er staðsett í.
Hér má sjá tímasetningar á skemmtidagskrá leikskólanna í Duushúsum. Leikskólarnir bjóða foreldrum að vera viðstaddir dagskrána en hún er einnig öllum opin og allir velkomnir.
Miðvikudagur 27. apríl
10.30 Garðasel
Fimmtudagur 28. apríl
10.30 Holt
13.30 Akur
Föstudagur 29. apríl
13.30 Vesturberg
Þriðjudagur. 3. maí
10.00 Háaleiti
13.30 Hjallatún
Miðvikudagur 4. maí
13.30 Heiðarsel
Fimmtudagur 5. maí
10.30 Gimli
13.30 Völlur
Föstudagur 6. maí
10.30 Tjarnarsel