Gunnlaugur Scheving

Nafn

Gunnlaugur Scheving

Fæðingardagur

08. júní 1904

Died

09. september 1972

Ferilskrá

Til lands og sjávar
Gunnlaugur Óskar Scheving 1904–1972                                     

Tvö meginstef í myndlist Gunnlaugs Schevings

Gunnlaugur Scheving er meðal helstu listamanna þjóðarinnar sem ruddi nýjum viðhorfum til myndlistar braut á fjórða áratug síðustu aldar en í Listasafni Íslands er varðveitt mikið safn verka hans og þar á meðal dánargjöf listamannsins. Á sýningunni sem er samstarfsverkefni Listasafns Íslands og Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar er að finna mörg frumdrög að stærri verkum sem fylgdu gjöfinni. Hér er tækifæri til að kynnast myndhugsun listamannsins og vinnuferli þar sem hann skoðar m.a. hvernig menn bera sig að við vinnu. Hann gerir ótal tillögur að myndskipan þar sem form og línur takast á og mynda spennu eða skapa fullkomið jafnvægi. Verkin á sýningunni sýna hvernig listamaðurinn þróar hugmyndir sínar frá raunsæjum lýsingum af vinnandi mönnum til sjós yfir í táknrænar myndir af samlífi manns og náttúru.

 

Gunnlaugur Scheving (1904–1972) var fæddur í Reykjavík en ólst upp á Austurlandi þar sem hann var fóstraður af Guðlaugu Jónsdóttur og Jóni Stefánssyni Scheving á Unaósi við Héraðsflóa. Þau bjuggu síðar á fleiri stöðum, svo sem Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1920 og sótti einkatíma hjá Einari Jónssyni myndhöggvara og nam við teikniskóla Guðmundar Thorsteinssonar, Muggs. Hann fór til Kaupmannahafnar 1923 og var á teikniskóla Viggos Brandt á Ríkislistasafninu um veturinn. Hann var síðan í fimm ár við Konunglegu listaakademíuna hjá prófessor Ejnar Nielsen og Aksel Jørgensen en báðir lögðu þeir mikla áherslu á teikningu.

 

Hann flutti síðan heim til Íslands ásamt unnustu sinni og skólasystur, Grete Link, árið 1930. Sama ár hélt hann sína fyrstu einkasýningu auk þess að sýna í Kaupmannahöfn. Gunnlaugur tilheyrir þeirri kynslóð listamanna sem fram komu í lok fjórða áratugarins þegar efnahagskreppa og þjóðfélagsátök beindu listamönnum inn á nýjar brautir í myndlistinni. Landslagið var ekki lengur aðalviðfangsefnið heldur nánasta umhverfi og daglegt líf þar sem hversdagslegir hlutir, maðurinn og vinnan urðu hin nýju viðmið. Áhrifa expressjónismans gætti hjá þessari nýju kynslóð sem lagði áherslu á litræna tilfinningalega túlkun viðfangsefnisins. List frumstæðra þjóðflokka höfðu opnað nýjar leiðir og í Þýskalandi lögðu expressjónistarnir áherslu á einlæga og heiðarlega list í ætt við þá sem finna mátti meðal frumstæðra þjóðflokka sem fór vel saman við viðhorf Gunnlaugs til myndlistar.

 

Hann þróaði málverk sín frá raunsæjum natúralisma yfir í grófgerðari stíl þar sem gætir mikillar einföldunar í formbyggingu og áhersla er lögð á heila litfleti og samþjöppun formanna þar sem myndrýmið er fremur grunnt og rennur saman í massa eins og í verkum kúbistanna.

 

Segja má að málverk Gunnlaugs af lífi íslenskra sjómanna hafi þegar hlotið verðskuldaða athygli og hafa þau haldið nafni hans á lofti síðan. Gunnlaugur og Grete bjuggu við erfiðar aðstæður á Seyðisfirði og síðan í Reykjavík frá 1935. Grete flutti alfarin frá Íslandi 1938 en vinskapur þeirra Gunnlaugs hélst.

 

Minningarnar frá æskuárunum að Unaósi er kvöldvökur tíðkuðust og sagðar voru sögur og farið var með kveðskap urðu Gunnlaugi fjársjóður til lengri tíma en í upphafi ferilsins varð lífið við hafnarbakkann á Seyðisfirði honum uppspretta, hvort heldur menn voru að störfum úti á reginhafi eða við fiskvinnu í landi. Verk Gunnlaugs snúast fyrst og fremst um manninn og veruleika hans. Það á bæði við um stór málverk sem sýna sjómenn að störfum úti á reginhafi og rómantískar sveitalífsmyndir af fólki sem t.d. hefur tekið sér hvíld frá vinnu eða konum við mjaltir. Þar kemur fram veruleiki liðins tíma eins og hann birtist í alþýðukveðskap, þulum og rímum áður en vélvæðingin tók við. Í sífelldri leit að ásættanlegri formskipan má merkja hvernig myndefnið er lagað að myndbyggingunni, láréttum og lóðréttum línum sem skapa festu og ró í huglægri túlkun listamannsins um tengsl manns og náttúru.

 

Það er eðlismunur á sjávar- og sveitalífsmyndunum. Heimur sjómannsins einkennist af átökum við náttúruöflin, hafið, veðrið og vindana og sveitalífsmyndunum sem einkennast af friði og ró og taka oft og tíðum á sig helgiblæ. Þar skynjum við samband bóndans og bóndakonunnar við húsdýrin þar sem áhersla er lögð á hringrás lífsins. Í sveitalífsmyndunum gat ímyndunaraflið farið á flug, manneskjur og dýr svífa um himininn í málverkum sem minna á ævintýri á meðan myndirnar af sjómönnunum eru nær raunveruleikanum þar sem bátar og skip veltast um á úfnu hafi og litir hafsins og himinsins gefa til kynna hvernig veðrið er þá stundina.

 

 

Gunnlaugur bjó á ýmsum stöðum á landinu framan af ævinni, þar á meðal í Grindavík en þangað fluttist hann árið 1940 og tók þá til við að mála myndir sem lýsa lífinu þar. Teiknaði hann m.a. andlitsmyndir af sjómönnunum sem áttu síðar eftir að verða fyrirmyndir sjómannanna í stóru málverkunum. Árið 1966 lauk hann við feiknastór málverk sem prýða veggi byggingar Háskóla Íslands, fyrrum Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð. Gunnlaugur ánafnaði Listasafni Íslands þau verk sem hann átti í fórum sínum árið 1972, og var dánargjöfin rúmlega 1800 verk.

 

Rakel Pétursdóttir