Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýninguna Formheimur Bjargar Þorsteinsdóttur þann 2. september 2021, sem samanstendur af akrýlmálverkum, olíukrítarteikningum og grafíkverkum víðsvegar af fimm áratuga löngum myndlistarferli Bjargar Þorsteinsdóttur (1940–2019). Aðdragandi sýningarinnar er gjöf frá erfingjum Bjargar, 105 myndverk sem safnið fékk afhent í maí 2020 og er því ekki um eiginlega yfirlitssýningu að ræða heldur sýningu á þeim hluta höfundarverksins sem er í safneign. Formheimur Bjargar Þorsteinsdóttur er innsýn í hugverk listamanns sem skapaði eigin myndheim með ákveðnum hugmyndum um efnivið og litanotkun. Björg vinnur inn í hefð abstraktlistarinnar með því að nota form, liti og myndbyggingu, en hún vinnur sig inn í hefðina á eigin forsendum með einkennandi myndmáli sem þróast í gegnum ferilinn frá hlutveruleika til ljóðrænu, frá manngerðum heimi í náttúru, frá hálf-abstrakt í fljótandi form.
Björg Þorsteinsdóttir (1940–2019) lagði stund á teikningu, málun og grafík, allt frá sjöunda áratugnum til æviloka. Hún hélt fjölmargar einkasýningar, sú fyrsta var haldin í Unuhúsi 1971, og var valin á samsýningar bæði hér á landi og erlendis. Verk eftir Björg eru í eigu helstu listasafna á Íslandi, opinberra stofnanna, einkasafna og safna víða um heim. Hún hlaut verðlaun árið 1970 á alþjóðlegri grafíksýningu í Entrevaux, Frakklandi, árið 1972 fyrir grafík á samsýningu styrkþega frönsku ríkisstjórnarinnar í París, Frakklandi, og árið 1976 á alþjóðlegri grafíksýningu, XXII Salon del Grabado y Sistema Estampacion í Madríd, Spáni. Björg fékk námsstyrk frönsku ríkisstjórnarinnar 1971–1973 og var einnig í vinnustofu Cité Internationale des Arts í París 1984–1985. Árið 1986 var henni falið að hanna jólafrímerki Pósts og síma.
Björg útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1964 og nam við Staatliche Akademie der bildenden Künste, Stuttgart, Þýskalandi 1961–1962 og 1968. Hún lærði steinþrykk við École Nationale Supérieure des Beaux Arts og málmgrafík við grafíkverkstæðið Atelier 17 í París, undir handleiðslu S.W. Hayter, 1970–1973. Björg sat í stjórn félagsins Íslensk grafík og í Félagi íslenskra myndlistarmanna, í ráði Norrænu myndlistarmiðstöðvarinnar NKC í Finnlandi og í fulltrúaráði Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Hún var forstöðumaður Safns Ásgríms Jónssonar 1980–1984 og vann einnig sem kennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík. Björg bjó og starfaði á Háaleitisbraut í Reykjavík.
Listasafn Reykjanesbæjar þakkar aðstandendum Bjargar Þorsteinsdóttur, dóttur hennar Guðnýju Ragnarsdóttur og dóttursyni Ragnari Árna Ólafssyni, fyrir rausnarlega gjöf til safnsins og ánægjulegt samstarf.
Sýningarstjóri er Helga Arnbjörg Pálsdóttir.
Sýningin stendur til og með 14. nóvember 2021.