Flökkuæðar - Loftfar / Vessels.

Inga Þórey Jóhannsdóttir opnar sýninguna "Flökkuæðar - Loftfar" / "Vessels" í Listasafni Reykjanesbæjar föstudaginn 4. september kl.18.00.

Farangur og farartæki er helsti efniviður Ingu Þóreyjar sem í verkum sínum leitar að svæðinu milli svefns og vöku, þess augljósa og þess sem er óaðgengilegt. Sýningin samanstendur af þrívíðum málverkum, máluðum skúlptúrum, hljóð- og ljósaverki sem stillt er upp þannig að úr verður nokkurs konar umferðarmiðstöð.

Á liðnum vetri hefur Inga Þórey skoðað fegurðina í farartækjum sem aldrei hafa haft öðru hlutverki að gegna en að vera staðir í sjálfu sér.

Ímyndunaraflið er þá hugsað sem helsti orkugjafinn til að koma þessum vélarlausu fyrirbærum á skrið, sem tæki til að koma sér á milli ákvörðunarstaða, til að flýja með, fela sig í, og á bak við eða jafnvel sem verkfæri.

Fyrir utan að búa til farartæki hefur Inga Þórey litið á verknaðinn að hylja og afhjúpa sem óhjákvæmilegt athæfi fyrir sýninguna. Mesta feluleikinn má finna í farangrinum sem á sýningunni verður en úr honum hafa verið valdir sérstakir kaflar til að afhjúpa og deila með öðrum.

Aðferðir sem notaðar eru við gerð verkanna felast í að því að þjappa, kremja, strekkja, sleppa lausu, pakka, mála og skera og notar listamaðurinn efni af ýmsu tagi, t.a.m. striga, svamp, málningu, gúmmíkvoðu, gler og steypu svo fátt eitt sé nefnt.