Fjölskyldusmiðjur og leiðsögn
HANDVERK OG HÖNNUN og Listasafn Reykjanesbæjar bjóða á næstunni upp á tvær mjög spennandi smiðjur og leiðsagnir í tengslum við sýninguna „Endalaust“ í Duus Safnahúsum. Sýningin inniheldur einungis verk úr endurunnum efnivið, þar sem hlutum sem annars yrði mögulega hent, er gefið nýtt og betra líf. Um er að ræða fjölbreytt og ólík viðfangsefni og alls 20 hönnuðir taka þátt í sýningunni.
Smiðjurnar sem fara fram 15.september og 6.október, eru öllum opnar, eru fyrir alla aldurshópa og aðgangur er ókeypis. Á undan smiðjunum mun sýningarstjórinn, Ragna Fróða, vera með leiðsögn um sýninguna fyrir áhugasama. Leiðsögnin er öllum opin óviðkomandi því hvort fólk tekur þátt í smiðjum og hefst hún báða dagana kl. 14 á sama tíma og smiðjurnar.
Fyrri smiðjan fer fram laugardaginn 15.september kl. 14-16 í Bíósal Duus Safnahúsa. Hún ber yfirskriftina „Handaband: Furðuverusmiðja fyrir fjölskyldur.“
Þátttakendur fá tækifæri til að skapa sína eigin furðuveru sem er gerð úr endurunnum textílefnum sem féllu til við framleiðslu á Íslandi. Efnin sem notuð verða koma frá Umemi, Glófa og Cintamani. Allir eru hvattir til að segja söguna af furðuverunni og leyfa öðrum að kynnast henni betur.
Síðari smiðjan verður haldin laugardaginn 6. október kl. 14-16 einnig í Bíósal Duus Safnahúsa. Hún ber yfirskriftina “Þráðlausar.”
Um er að ræða n.k. verksmiðju fyrir alla aldurshópa þar sem textíll og endurvinnsla koma saman til að gefa gömlum og gleymdum hlutum nýtt líf. Mæta skal með einn hlut að heiman sem fólk langar að endurbæta með textíl og á staðnum verður efni til að nota og fræðsla um vefnað og textíl.