Saga verður til
Listamaðurinn Finnur Arnar vinnur jöfnum höndum að myndlist, leikmyndagerð og á síðustu árum hefur sýningarstjórnun bæst við með myndlistarverkefni hans Skúrnum, en þar hefur fjöldi listamanna sett upp sýningar á undanförnum tveimur árum. Í myndlistinni hefur hann
skapað innsetningar, notfært sér texta og fundna hluti og unnið fjölda myndbandsverka. Oft koma allir þessir þættir saman á sýningum hans.
List Finns hefur íslenskan veruleika að viðfangsefni. Hún kallast einnig á við alþjóðlega strauma og stefnur, þar má nefna innsetningar Rússans Ilyas Kabakov (1933) og myndbandsinnsetningar Bandaríkjamannsins Dans Graham (1942) sem hafa tímann að grundvelli. Einnig koma sjálfsævisögulegar innsetningar fransk-amerísku listakonunnar Louise Bourgois (1911-2010) upp í hugann, en Finnur hefur bæði unnið að sýningum með fjölskyldu sinni og gert fjölskyldubönd sín að inntaki listaverka.
Innsetningar Finns hafa gjarnan yfirbragð sviðsetninga. Hversdagslífið er sett á svið á fjölbreyttan máta. Listamaðurinn skapar rými sem áhorfandinn gengur inn í og gefur líf með návist sinni. Hér er iðulega að finna sterka frásögn, ýjað er að sögu: hér var einhver, nú er hann farinn, skyldi hann koma aftur? Hver er hann?
Innsetningin Mörðurinn, 2010, var af þessum toga. Í sýningarrýminu kom Finnur fyrir ýmsum munum: dýnu, vistum, hlutum notuðum við slátrun dýra, handskrifuðum miðum með boðorðunum tíu. Í rýminu vaknaði upp mynd af fjarstöddum manni. Kannski listamanninum sjálfum sem hafði skroppið frá, en einnig kviknuðu siðferðislegar spurningar um eðli mannsins, siðareglur og tvískinnung samfélags sem myrðir dýr á hryllilegan hátt.
Sviðsettur vinnustaður verkamanns í Skúrnum, Holiness, 2011, varpaði ljósi á eilíf, en vanmetin gildi, vinnu handverksmanna í gegnum aldirnar. Stóra samhengið sem listamaðurinn skapaði með lítilli, útklipptri mynd af gömlu málverki af Jósepi smið sem við þekkjum úr Biblíunni varpaði ljóma á verkfærin í skúrnum, fábreyttan kost og kaffibrúsa.
Í myndbandsverkum síðustu ára hefur Finnur birt einfaldar og magnaðar myndir úr nútímasamfélagi. Samfélagi sem gerir látlausar kröfur til þegna sinna, karla jafnt sem kvenna en Finnur hefur markað sér sérstöðu innan íslenskrar myndlistar með áleitinni umfjöllun sinni um karlhlutverkið. Karlmaðurinn í verkum Finns Arnars á sér margar hliðar. Samfélagið gerir kröfur til hans sem hreystimennis (Víkingur, 2001) og fyrirvinnu og einnig má sjá ádeilu á
innihaldslausa neysluhyggju nútímasamfélags. Í öðrum verkum birtist karlmaður Finns sem manneskja í tengslum við umhverfi sitt, í nánu sambandi við barnið sitt og náttúruna (Man on the Moon, 2010), við sína nánustu, við undirmeðvitund sína og drauma, líkt og mótvægi við myndirnar af karlmanni í tilvistarkreppu. Undirliggjandi og allt um kring er síðan fullvissan eina: dauðinn.
Tíminn er lykilþáttur í myndlist Finns Arnars. Í myndbandsverkum sínum hefur hann iðulega unnið með skýrt afmörkuð tímaskeið sem undirstrika eiginleika tímans. Í Þorpinu, (2004) var tvískiptri mynd varpað á vegg. Tvær upptökur af sjávarþorpi, teknar hvor á eftir annarri voru sýndar samtímis. Fortíð og framtíð birtust á sama tíma, í rauntíma áhorfandans, sem í sífellu flöktir á milli í huga sér. Til varð skýr meðvitund um augnablikið sem líður í sífellu, núið sem verður fortíð, án afláts. Tímans þungi niður hljómar sterkt.
Ferð/Journey er tvískipt verk eins og fleiri verka Finns, en þó órofin heild. Síendurtekin myndbrot sýna gangandi mann sem dregur með sér veiðimannsgogg; karlmaður snýst hægt um sjálfan sig, hann er listamaðurinn sjálfur. Peningar svífa í lausu lofti, ósnertanlegir. Fingurgómar tromma á borð, við sjáum nöturleg verksummerki um afstaðin jól. Listamaðurinn dregur upp táknmyndir opnar til túlkunar. Hann staðsetur áhorfandann í verkinu miðju, rétt eins og maðurinn sem snýst er áhorfandinn milli tveggja mynda, snýr sér sitt á hvað til þess að virða þær fyrir sér. Hvað hugsar sá sem snýst milli peningaóróa, leifa bruðls, eða sá sem bíður og trommar fingrum? Eða veiðimaðurinn á eilífri göngu með gogg sinn, nemur aldrei staðar?
Ferð/Journey vekur upp áleitnar spurningar: sammannlegar og erfiðar. Spurningar um tilgang lífsins, gildi og hamingjuleit. Við þessum spurningum eru ekki til nein svör nema þau sem við finnum sjálf innra með okkur og eru breytileg á lífsleiðinni. Ferð/Journey er magnað verk í umfangi sínu og þrunginni návist, taktfastri og áleitinni. Á hvaða ferð erum við?
Ragna Sigurðardóttir