Fegurð, frost og fullveldi!
Fræðslu- og skemmtidagskrá í Duus Safnahúsum
Einstök myndlistarsýning stendur nú yfir í Listasafni Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands. Öll verkin á sýningunni sýna Þingvelli, einn helgasta stað íslenskrar sögu og tengist sjálfstæðisbaráttunni sterkum böndum. Verkin eru eftir 17 merka myndlistarmenn 20.aldarinnar og eru öll í einkaeigu.
Í tengslum við sýninguna stendur safnið fyrir nokkrum viðburðum í samvinnu við ýmsa aðila og fimmtudaginn 22.mars verður einn slíkur í Bíósal Duus Safnahúsa kl. 17.30. Byggðasafn Reykjanesbæjar, Sögufélag Suðurnesja og Leikfélag Keflavíkur ásamt listasafninu standa að þessum viðburði þar sem myndlistin, sagan, tónlistin og bókmenntirnar skipa öll sinn sess. Þar munu koma fram Eiríkur Hermannsson formaður sögufélagsins sem bregður upp mynd af kjörum fólks á Suðurnesjum árið 1918, Aðalsteinn Ingólfsson sýningarstjóri Þingvallasýningarinnar segir frá myndlistarsýningunni, Arnór Vilbergsson organisti og Elmar Þór Hauksson söngvari flytja íslensk sönglög og félagar úr leikfélaginu verða með lifandi gjörning. Sigrún Ásta Jónsdóttir safnstjóri byggðasafnsins stýrir dagskránni.
Dagskráin hefst kl. 17.30 þann 22.mars, aðgangur er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og Fullveldissjóði Íslands.