Erró málar í þriðju persónu-hann notar myndir sem hafa áður birst á prenti sem efnivið í verk sín. Snemma á sjöunda áratug síðustu aldar gerðist hann fráhverfur beinni tjáningu-hætti að búa til ný form og nýjar ímyndir en sneri sér þess í stað alfarið að margbreytilegum myndheimi fjölmiðlanna, til þess að geta betur kannað þjóðfélagslegar og menningarlegar mótsagnir sem tilheyra heimi gengdarlausrar neysluhyggju. Í fyrstu ferð sinni til New York 1963 komst hann í kynni við bandarísku pop-listina. Þau kynni höfðu afgerandi áhrif á þróun myndlistar hans. Fram að því hafði hann samhliða málverkunum búið til klippimyndir(collages), þar sem efniviður var sóttur í blöð og tímarit en nú fro hann að nota klippimyndirnar sem frumyndir málverkanna. Erró er í stöðugri heimildasöfnun í tengslum við list sína...Þetta myndasafn samanstendur af úrklippum úr dagblöðum, tímaritum, bæklingum, eru veggspjöld, póstkort, auglýsingar og ekki síst myndsögublöð. Þetta ríkulega magn myndefnis er uppspretta og efniviður klippimyndanna sem hann setur saman og síðan varpar á striga og málar... Þessi aðferð gerir Erró kleift að búa til óvæntar samsetningar sem stundum geta virst fyndnar eða kaldhæðnar-en geta líka, við nánari skoðun, komið óþægilega við áhorfandann eða virkað truflandi. Því oft má greina, undir fáguðu yfirborði málverka hans, hvassa póltíska gagnrýni og flóknar sálfræðilegar vangaveltur. Samsetning myndbrota frá ólíkum tímaskeiðum gefur listamanninum einnig færi á að brjóta upp öll takmörk tíma og rúms í verkunum. Viðfangsefni mynda hans eru líka ótrúlega fjölbreytt: pólitík og samfélagsleg málefni hafa löngum verið eitt megin viðfangsefni verka Errós ásamt tilvísunum í lista-og menningarsöguna.
Úr sýningarbæklingi.