Árið 1991 var sú ákvörðun tekin í bæjarstjórn Keflavíkur að útnefna í fyrsta sinn bæjarlistamann. Erlingur Jónsson varð fyrstur til að hljóta útnefningu og var hann sæmdur heiðursnafnbótinni Listamaður Keflavíkur sem nú kallast Listamaður Reykjanesbæjar. Mönnum þótti Erlingur vel að þessu kominn þar sem hann hafði í áratugi unnið að listsköpun í þágu bæjarbúa, bæði að eigin verkum og ekki síður sem áhrifavaldur ungra og upprennandi listamanna í bænum en hann starfaði lengi sem kennari við grunnskóla bæjarins og var einnig frumkvöðull Baðstofunnar sem var vettvangur eldri nemenda í myndlist.
Með sýningu á Ljósanótt á nokkrum verkum Erlings, í ófullgerðum sal Bryggjuhússins, voru kynntar þær hugmyndir menningarráðs, að í framtíðinni muni Listasafn Erlings Jónssonar verða eitt af söfnunum í Duushúsum og þar verði ávallt hægt að ganga að verkum hans vísum. Eftirtaldir 14 skúlptúrar voru á sýningunni sem stóð út september.
- Lúður, marmari serpentin 8. Gapið, marmari, serpentin
- Eldliljan, brons á steinsúlu 9. Gollý, marmari, serpentin
- Lífsins tré, stál á steinundirstöðu 10. Gagnrýnandinn, viður
- Gagnrýnandinn, stál 11. Njörður, epoxy á steini
- Fulltrúi á fiskiþingi, járn 12. Heiðurshjón, stál
- Íslands Hrafnistumenn, stál 13. Starfslokasamningur, brons, stál
- Fiskur, járn á viðarundirstöðu 14. Fuglinn Fönix, stál á viðarplötu
Í Reykjanesbæ má víða sjá önnur verk eftir Erling Jónsson og var gestum bent á bæklinginn um útilistaverk bæjarins sem lá frammi og voru þeir hvattir til að leggja leið sína um bæinn og njóta verkanna í eðlilegri umgjörð.