Endurfundir

Reunion

Listasafn Reykjanesbæjar opnar sýninguna Endurfundir föstudaginn 1. nóvember n.k. kl. 18.00 og er það jafnframt síðasta sýning safnsins á þessu ári. Um er að ræða samsýningu þeirra Þórðar Hall og Kristbergs Ó Péturssonar en þeir sýna báðir ný olíuverk.

 
Báðir listamenn eiga sér sterkar rætur í því náttúrulega umhverfi sem þeir eru sprottnir upp úr, Þórður í reykvísku landslagi á mörkum byggðar og óbyggðar, þar sem víðáttur og hafflötur dreifa og endurkasta birtu þannig að sjónheimur vegur salt milli veru og óveru, Kristbergur í myrku og hrikalegu hraunlandslaginu í Hafnarfirði, þar sem ljósið er lífgjafi, í eiginlegum jafnt sem óeiginlegum skilningi. Annað eiga þeir einnig sammerkt, nefnilega áhugann á helstu virkjunarmönnum ljóssins í heimslistinni, ekki síst Turner, en Kristbergur hefur einnig sótt innblástur til Tizianos og Rembrandts.


Kristbergur og Þórður hafa báðir verið virkir í heimi myndlistarinnar um langan tíma og eru báðir vel þekktir málarar um leið og þeir hafa sinnt kennslu og ýmsum öðrum störfum tengdum myndlist. Þeir hafa sýnt víða, bæði hér og erlendis en þetta er fyrsta samsýning þeirra. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.


Sýningin stendur til 15. desember. Safnið er opið virka daga kl. 12.00-17.00, helgar kl. 13.00-17.00. Ókeypis aðgangur.

Endurfundir

Síðasti viðburður sýningarársins 2013 í Listasafni Reykjaness er helgaður tveimur listmálurum sem ekki hafa haft sig mikið í frammi, en eiga sér ófáa vildarmenn meðal vandlátra listunnenda. Þeir listamenn sem hér um ræðir, Þórður Hall og Kristbergur Ó. Pétursson, hafa heldur ekki valist til þessarar sýningar af einskærri tilviljun, því á áttunda áratugnum var sá fyrrnefndi kennari hins síðarnefnda í Myndlista og handíðaskólanum. Í framhaldinu þróaðist myndlist þeirra með ólíkum hætti; með þokkafullum sáldþrykkjum sínum varð Þórður einn af meginstoðum íslensku grafíkbylgjunnar á níunda áratugnum, en Kristbergur hreifst með annarri bylgju, nýja málverkinu, sem reið yfir íslenskt myndlistarlíf um svipað leyti.

 

En þrátt fyrir ólíkar áherslur áttu báðir listamenn sér sterkar rætur í því náttúrulega umhverfi sem þeir eru sprottnir upp úr, Þórður í reykvísku landslagi á mörkum byggðar og óbyggðar, þar sem víðáttur og hafsflötur dreifa og endurkasta birtu þannig að sjónheimur vegur salt milli veru og óveru, Kristbergur í myrku og hrikalegu hraunlandslaginu í Hafnarfirði, þar sem ljósið er lífgjafi, í eiginlegum jafnt sem óeiginlegum skilningi. Annað eiga þeir einnig sammerkt, nefnilega áhugann á helstu virkjunarmönnum ljóssins í heimslistinni, ekki síst Turner, en Kristbergur hefur einnig sótt innblástur til Tizianos og Rembrandts.

 

Nú, aldarfjórðungi seinna, gerir náttúrulegt umhverfi meira tilkall til beggja en nokkru sinni. Að sönnu eru þeir afar ólíkir hvað upplag og vinnubrögð snertir. Í myndum Þórðar eimir ævinlega eitthvað eftir af hinu kunnuglega: fjallsbrún, vatnsborð eða eyri birtast okkur sem í tíbrá eða draumi. Kristbergur rýfur öll tengsl við kunnugleikann og gefur sig á vald ótömdum náttúrukröftunum við jaðar hins byggilega heims. Myndir Þórðar eru gegnsýrðar af blámóðu bjartsýninnar; þær segja okkur að draga megi marktækar ályktanir af því sem við okkur blasir. Sérhver hinna mörgu landslagstengdu mynda Kristbergs er ferð á vit hins óþekkta, án fyrirheits um viðunandi niðurstöðu.

 

Markmið sýningarinnar er að tefla saman þessum tveimur viðhorfum til landslagstúlkunar, freista þess að láta þau slá neista hvert af öðru og kveikja þannig nýja upplifun í hugum okkar áhorfenda. Listamennirnir eiga þakkir skildar fyrir umburðarlyndi sitt gagnvart þessari endurskoðun hugmyndarinnar um samsýninguna.

 

Aðalsteinn Ingólfsson