Eitt ár á Suðurnesjum - ljósmyndasýning

Tjáum líf okkar í myndum – Ljósanætursýningin 2018

Listasafn Reykjanesbæjar og Norræna húsið í Færeyjum verða í samstarfi með stóra  ljósmyndasýningu sem haldin verður á Ljósanótt 2018 í nokkrum sýningarsölum Duus Safnahúsa. Færeyingar leggja til sýninguna „Föroyar i et år“ sem samanstendur af rúmlega 600 ljósmyndum sem íbúar eyjanna tóku og lýsa daglegu lífi þeirra í eitt ár á sama tíma og ljósmyndasýningin „Eitt ár á Suðurnesjum“ verður opnuð í Listasal Duus Safnahúsa.

Listasafn Reykjanesbæjar bauð í upphafi árs öllum þátttöku í Ljósanætursýningu safnsins, „Eitt ár á Suðurnesjum“, Lagt var upp með spurninguna "Hvað hefur gerst á árinu?" og fólk beðið að safna saman ljósmyndunum af alls kyns tilefnum sem teknar voru á Suðurnesjum á tímabilinu 17. júní 2017 til 17. júní 2018.

Hver og ein myndanna segir sína sögu af lífi þátttakenda á árinu og saman segja allar innsendar myndir, allra þátttakenda eina góða sögu af daglegu lífi á Suðurnesjum. Skilafrestur var til 1. júlí 2018. Allar innsendar myndir verða sýndar á Ljósanætursýningunni, þær bestu útprentaðar en hinar á skjám.

Góð þátttaka var í keppninni og verður mjög spennandi að sjá afraksturinn á Ljósanætursýningu Listasafnsins 2018 sem opnuð verður þann 30. ágúst n.k.

 

Gallery - Eitt ár á Suðurnesjum - ljósmyndasýning