Ein mynd segir meira en 1000 orð!
Ljósanætursýning Listasafns Reykjanesbæjar í ár er ljósmyndasýningin Eitt ár á Suðurnesjum og verður hún opnuð fimmtudaginn 30.ágúst kl. 18.00. Sýningin er afrakstur samkeppni sem safnið stóð fyrir árin 2017-18 og var öllum Suðurnesjamönnum boðið að senda inn ljósmyndir sem teknar yrðu eftir ákveðnum reglum. Skilyrðin voru að myndirnar skyldu lýsa daglegu lífi og náttúru á Suðurnesjum á einu ári, nánar til tekið frá 17.júní 2017 til 17.júní 2018. 350 ljósmyndir bárust og eru þær allar til sýnis í Listasal Duus Safnahúsa, ýmist útprentaðar eða á skjá. Sex ljósmyndir sigruðu og fóru í hópinn „Bestu myndirnar“ en 30 aðrar fengu sérstaka viðurkenningu sem góðar ljósmyndir. Tilkynnt verður við opnun hverjir vinningshafarnir eru. Dómnefnd skipuðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta og Þuríður Aradóttir Braun forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness. Sýningarstjórar voru Inga Þórey Jóhannsdóttir myndlistarmaður, Oddgeir Karlsson ljósmyndari og Valgerður Guðmundsdóttir forstöðumaður Listasafns Reykjanesbæjar.
Samhliða þessari sýningu verður „systursýningin“ Eitt ár í Færeyjum opnuð í Bíósal Duus Safnahúsa. Sú sýning er líka ljósmyndasýning sem er afrakstur samkeppni sem Norræna húsið í Færeyjum stóð fyrir árin 2016-17 og var sumarsýning Norræna hússins í Þórshöfn sumarið 2017. Öllum Færeyingum var þá boðið að senda inn ljósmyndir sem lýstu daglegu lífi og náttúru í Færeyjum á einu ári, nánar tiltekið frá flaggdeginum 2016 til flaggdagsins 2017. Færeysku vinningsmyndirnar 12 má sjá útprentaðar í Bíósal Duus Safnahúsa en allar aðrar innsendar myndir eru sýndar á skjá.
Segja má að orðtakið „Ein mynd segir meira en þúsund orð“ sé góð lýsing á þessum skemmtilegu sýningum. Ljósmyndirnar gefa gestum innsýn í daglegt líf þessara frændþjóða. Margt er ólíkt en þó er miklu meira sameiginlegt og heildarsvipur beggja sýninganna lýsir bjartsýni og hlýju sem gefur von um gott líf og bjarta framtíð. Þarna hlýtur að vera gott að búa!
Mynd: Jón Óskar Hauksson