Efnaskipti

Framlag Listasafns Reykjanesbæjar til Listahátíðar 2010 er sýningin Efnaskipti eða Metabolism,sem er samvinnuverkefni safnsins og fimm myndlistarkvenna: Önnu Líndal, Guðrúnar Gunnarsdóttur, Hildar Bjarnadóttur, Hrafnhildar Arnardóttur og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur. Sýningin er sjálfstætt áframhald verkefnis sem hófst í safninu árið 2008, en þá voru þrír listamenn fengnir til að kanna hvort lífsmark væri með einni elstu listgrein Íslendinga, tréskurði. Í framhaldi af því var ákveðið að láta reyna á þanþol annarrar fornrar listgreinar, textílsins. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.

Á sýningunni er að finna fimm innsetningar úr blönduðum efnum, mjúkum efnum, aðskotahlutum, ljósmyndum, plastefnum, myndböndum o.fl. Í verki Önnu Líndal eru „viðgerðin" og hugmyndir henni tengdar í aðalhlutverki. Um verkið segir Anna: „Viðgerðin er áþreifanleg heimild um samskipti einstaklings við hlut úr umhverfi sínu. Þetta eru persónuleg samskipti sem mótast á mismunandi hátt hjá þjóðum." Guðrún Gunnarsdóttir sýnir veggmynd sem snýst um þær fiskitegundir sem veiðast úti fyrir Reykjanesi. Hún segir: „Fiskiveiðar eru oftast tengdar karlmönnum, en mig langaði til að tengja fiskinn við hið kvenlega, svo sem útsaum, léttleika." Hildur Bjarnadóttir gerir tvíþætt verk, annars vegar innsetningu sem hverfist um spunavél frá gamla Bændaskólanum í Ólafsdal, hins vegar smærri innsetningu um íslenskan rokk frá Brennistöðum og köttinn Dúsu sem er heimilisföst í húsakynnum Listasafns Reykjanesbæjar. Framlag Hrafnhildar Arnardóttur er innsetning úr plasti og mjúkum gerviefnum sem er eins konar tilbrigði við eldgos og hraunrennsli. Innsetning Rósu Sigrúnar Jónsdóttur heitir Lífgrös, og er margbrotin hugleiðing um hamingjuna og íslensk grös.

Sýningunni fylgir vönduð sýningarskrá þar sem Úlfhildur Dagsdóttir leggur út af hugmyndum sýnenda og tengir þær með ýmsum hætti. Í inngangi skrárinnar segir Aðalsteinn Ingólfsson :; „Á hljóðlátan og ýkjulausan hátt tæpa listakonurnar fimm á ýmsum sammannlegum og þjóðfélagslegum þáttum, til dæmis hugmyndinni um rof og upplausn jafnt í félagslegu sem þjóðfélagslegu tilliti, hugmyndinni um „flæði" sem skapandi og tortímandi fyrirbæri og hugmyndinni um handverkið sem eins konar sáttafund manns og náttúru."

Sýningin Efnaskipti í Listasafni Reykjanesbæjar stendur frá 16. maí til 15. ágúst. Leiðsagnir um sýninguna fara fram meðan á henni stendur og verða auglýstar nánar síðar.

Efnaskipti

Sýningin Efnaskipti, sem listakonurnar anna Líndal, guðrún gunnarsdóttir, Hildur Bjarnadóttir, Hrafnhildur arnardóttir og Rósa sigrún Jónsdóttir hafa dregist á að setja saman fyrir Listasafn Reykjanesbæjar, er sjálfstætt áframhald verkefnis sem hófst í safninu á Listahátíð fyrir tveimur árum. Þá vildum við kanna hvort lífsmark væri með einni elstu listgrein íslendinga, tréskurði, og hvernig þremur samtímalistamönnum nýttist trjáviður og rótgróin aðferðafræði hans til sköpunar marktækra verka til handa nútíð, af því spratt sýningarnafnið Þríviður. sýningin heppnaðist framar öllum vonum, og því vildum við láta reyna á þanþol annarrar fornrar listgreinar, textíls. Þrjár af listakonunum fimm sem völdust til verkefnisins eiga sammerkt að þær hófu feril sinn undir merkjum tiltölulega hefðbundins textíls, en hafa síðan allar unnið á sviðum samtímalista eins og konseptlistar, innsetninga, tískuhönnunar, leikhúss, að ógleymdri tilraunastarfsemi á mörkum mannfræði og vistfræði. Undantekningarnar tvær, anna Líndal og Hrafnhildur arnardóttir, eiga sér myndlistarlegar rætur annars staðar, en hafa á ferli sínum ítrekað komið inn á vettvang veflista og mjúkra efna. 

Listakonurnar fimm fengu enga forskrift, aðeins hvatningu til að nýta sal Listasafnsins til fullnustu, sýna okkur fram á það hve ríkulegan ávöxt hið frjóa 
samneyti allrahanda veflista og annarra lista, efnaskiptin sem vísað er til, geti borið þegar rétt er á haldið. myndlistarsýning án forskriftar er alltaf eins konar óvissuferð, bæði fyrir listamenn og sýningarstjóra, því var það ánægjulegt að sjá fyrstu drög að verkum þeirra, þar sem fram kom bæði fagmennska þeirra og vilji til að láta reyna á listrænar og hugmyndalegar eigindir þess efniviðar sem þær voru með undir höndum, og það sem er ekki minna um vert, virkja þessar eigindir til umfjöllunar um samtíma sinn. 

Á hljóðlátan og ýkjulausan hátt tæpa listakonurnar fimm á ýmsum sammannlegum og þjóðfélagslegum þáttum sem úlfhildur Dagsdóttir leggur nánar út af í skáldlegum formála sínum hér á eftir, til dæmis hugmyndinni um rof og upplausn jafnt í félagslegu sem þjóðfélagslegu tilliti, hugmyndinni um „flæði“ sem skapandi og tortímandi fyrirbæri og hugmyndinni um handverkið sem eins konar sáttafund manns og náttúru. Listasafn Reykjanesbæjar kann listakonunum og úlfhildi Dagsdóttur bestu þakkir fyrir þátttökuna í þessu verkefni. 

Aðalsteinn Ingólfsson 
Sýningarstjóri