Dúkka

Sýning Valgerðar Guðlaugsdóttur "Dúkka" opnar í Listasafni Reykjanesbæjar fimmtudaginn 1. september klukkan 18 00. Sýningin er liður í Ljósanæturhátíðinni.

Valgerður hefur búið í Reykjanesbæ um skeið og er þetta hennar níunda einkasýning. Hún hefur á undanförnum árum einbeitt sér að reynsluheimi kvenmannsins í nútíma þjóðfélagi. Verk Valgerðar varpa fram áleitnum spurningum um mannseðlið, hlutskipti kynjanna og einnig samskipti þeirra.


Eins og Þóra Þórisdóttir segir í sýningarskrá þá var feminismi í listum dottinn úr tísku um 1990 þegar Valgerður Guðlaugsdóttir var að hefja listnám. Svokallaður póstfeminismi var tekinn við þar sem kenningar andfeminista náðu ákveðnu vægi um leið og feminismi sem slíkur var smættaður inn í heildarhugmyndafræði póstmódernismans. Eftir það átti áberandi feminísk list undir högg að sækja, þótti úrelt eða þreytt um leið og „eðlislægur kvenleikinn" var endurframleiddur og markaðssettur sem aldrei fyrr.


Valgerður lítur á sig sem pop-feminista. Í list sinni notar hún tilbúna hluti úr afþreyingariðnaðinum og blandar þeim saman við hluti úr sínum eigin hugmyndaheimi. Á þessari sýningu veltir hún fyrir sér kvenímyndinni, hvernig konan reynir að uppfylla þá ímynd sem gefin er af henni í samfélaginu og hvernig hún fellir sig inn í munstrið sem henni er gefið en einnig hvernig hún getur verið sinn eigin skapari. Þóra segir ennfremur í sýningarskrá að litlar stelpur byrja að þjálfa sig í kvenleiknum frá unga aldri. Kvenleikurinn sem er einskonar grímuleikur miðast að því að taka upp ákveðið viðurkennt kynhlutverk með tilheyrandi látbragði, klæðaburði og þóknast þannig ráðandi hugmyndafræðilegum öflum feðraveldisins sem gegnsýra menninguna.