Brúðusýningin "Móðir, kona, meyja"

Flestar konur sem komnar eru fram yfir miðjan aldur kannast örugglega við að hafa annað hvort sjálfar eða einhver þeim tengdur safnað þjóðbúningadúkkum á sínum tíma. Ein af sumarsýningum þessa árs í Duushúsum er sýning á íslenskum þjóðbúningadúkkum í eigu Helgu Ingólfsdóttur, hannyrða- og listakonu úr Reykjanesbæ.  Dúkkurnar spanna rúmlega hálfrar aldar tímabil, þær elstu eru frá miðri síðustu öld en þær yngstu frá síðasta ári.  Brúðurnar eru afar fjölbreytilegar, þær koma ekki aðeins frá mismunandi tímabilum heldur líka frá mismunandi stöðum, eru unnar bæði innan lands og utan og eiga það eitt sameiginlegt að klæðnað þeirra má rekja til íslenska þjóðbúningsins.
 

 Vakin er sérstök athygli á, að í safninu, sem telur nokkra tugi, má sjá athyglisverðar brúður sem Helga hefur sjálf unnið í gifsi.