Bíósalur

Á Ljósanótt verður opnuð sýning á verkum Eggerts Guðmundssonar listmálara í Bíósal Duushúsa. Verkin á sýningunni eru fjölbreytt að efnisvali; olíuverk, teikningar o.fl. en verkin eiga það sammerkt að flest þeirra eru í eigu bæjarbúa sjálfra. Fjölskylda Eggerts lánaði líka nokkur verk og einnig hafa bæði Listasafn Íslands og Listasafn Reykjanesbæjar lánað verk. Sýningin er ekki eiginleg yfirlitssýning en sýnir gott úrval verka hans. 
Eggert Guðmundsson var fæddur í Stapakoti í Innri-Njarðvík, árið 1906. Hann hóf ungur listnám og lærði m.a. hjá Stefáni Eiríkssyni, Einari Jónssyni myndhöggvara og Ríkharði Jónssyni en haustið 1927 hélt hann út til frekara náms og dvaldi í München í Þýskalandi í þrjú ár og eitt ár var hann við nám á Ítalíu. Dvaldi hann síðan erlendis að mestu til ársins 1940 en flutti þá heim til Íslands. Eggert var vinsæll málari og hélt fjölda sýninga bæði hér á Íslandi og erlendis. Sýningin í Duushúsum mun standa til 27. september.