Barbara Árnason (1911 - 1977)

Nafn

Barbara Árnason (1911 - 1977)

Ferilskrá

Barbara Moray Williams Árnason var fædd þann 19. apríl 1911 á Englandi. Hún stundaði nám við listaskólann í Winchester og útskrifaðist 1935 úr framhaldsnámi úr Royal College of Art á sviði málmristu og tréstungu.

Hún kom til Íslands 1936 og giftist Magnúsi Á. Árnasyni, listfengnum þúsundþjalasmiði. Með tréstungunum lagði Barbara grunninn að íslenskri þrykklist og telst meðal brautryðjenda á því sviði hér á landi.

Barbara var ákaflega fjölhæf listakona, listmálari, vatnslitamálari, afburða teiknari, myndskreytir og textíllistamaður. Sérstaklega þótti hún næmur túlkandi barnslegrar vitundar, eins og sést í portrettmyndum hennar af börnum, myndskreytingum í barnabókum og síðast en ekki síst, í veggmyndunum sem hún gerði fyrir Melaskóla í Reykjavík á árunum 1952–53. Árið 1944 byrjaði hún á myndbálki sínum við Passíusálma Hallgríms Péturssonar sem hún lauk árið 1951. Frummyndirnar er að finna í eigu Listasafns Íslands. Þá eru lopaverk Barböru eru eitt af því frumlegasta sem lagt hefur verið af mörkum til íslenskrar vefjarlistar á síðustu öld. Hún sýndi þau margsinnis í París og seldi vel.  Þá gerði Barbara einnig veggskreytingar í Apóteki Vesturbæjar, altaristöflu í Kópavogskirkju og Sundlaug Vesturbæjar.

Árið 1961 þegar hún varð fimmtug var hún heiðruð af Félagi íslenzkra myndlistarmanna með veglegri yfirlitssýningu af verkum hennar.
 

Heimild: Wikipedia, Gerðarsafn og Listasafn Reykjavíkur