Augastaðir

Laugardaginn 15. janúar kl. 15.00 verður opnuð sýning á verkum listmálarans Óla G. Jóhannssonar.

 

Á sýningunni, sem ber yfirskriftina Augastaðir - Behind my eyes, gefur að líta rúmlega 20 ný akrílverk, lituð sterkum tilfinningum, bjartsýni og leikgleði. Óli G hefur verið duglegur við sýningarhald síðustu ár og m.a. sýnt víða erlendis á vegum Opera , aþjóðlegs gallerís sem hann er samningsbundinn við.

 

Um verkin á þessari sýningu Óla segir m.a. í sýningarskrá: Af mikilli elju hefur Óli G. Jóhannsson haldið áfram að þróa málverk sín út frá norðlensku landslagi og æskuminningum, síað þessi viðfangsefni í gegnum COBRA list Svavars Guðnasonar og félaga hans í Danmörku, barnateikningar, einkanlegar fantasíur og list frumþjóða og aukið við þau af því sem hann hefur séð á ferðum sínum um sólrík lönd á borð við Ítalíu og Austurlönd fjær.


Sýningin er í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum og stendur til 27. febrúar. Þar er opið virka daga frá kl. 12.00 - 17.00 og um helgar frá kl. 13.00 - 17.00 og aðgangur er ókeypis.