Andlit bæjarins

Ljósanætursýning Listasafns Reykjanesbæjar og Ljósops

Ljósanætursýning Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsi, Andlit bæjarins, er að þessu sinni unnin í samstarfi við Ljósop, félag áhugaljósmyndara í Reykjanesbæ. Það hefur verið stefna Listasafnsins að á Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar sé heimafólk í fyrirrúmi og hafa listamennirnir hverju sinni tengst Reykjanesbæ með einum eða öðrum hætti. Að þessu sinni eru hvoru tveggja, viðfangsefnin og ljósmyndarinn heimafólk og á sýningunni sem opnar fimmtudaginn 3. september verða rúmlega 300 myndir af bæjarbúum til sýnis og um helgina verða teknar fleiri myndir af íbúum og brottfluttum á fyrirfram auglýstum tímum því takmarkið er að ná sem flestum.

 

Ljósop er einn af menningarhópum Reykjanesbæjar og hefur ávallt staðið fyrir skemmtilegum sýningum á Ljósanótt og þannig lagt sitt af mörkum til öflugs menningarlífs bæjarins . Upphaflega varð verkefnið Andlit bæjarins til eftir áramótin 2015 þegar Ljósop ákvað að setja upp litla sýningu fyrir Safnahelgi á Suðurnesjum sem haldin var í mars síðastliðnum. "Við byrjuðum á því að mynda vini og vandamenn en fórum fljótlega að hafa upp á fólki sem gaman væri að mynda. Suma fundum við í kirkjunni, aðra í Sporthúsinu og úti á götu. Auk þess mynduðum við gesti sem komu til okkar á Safnahelginni. Bæjarbúar tóku verkefninu mjög vel, og aðsóknin í myndatöku verið vonum framar! Verkefnið hefur spurst út og smám saman hefur það aldeilis undið upp á sig. Verkefnið hefur mikið og skemmtilegt sögulegt gildi, þá sérstaklega fyrir komandi kynslóðir" segir Björgvin Guðmundsson sem tekið hefur allar myndirnar.

Aðalsteinn Ingólfsson er sýningarstjóri og tengir þetta verkefni fagurfræði uppsöfnunar. „Í sjónlistum hefur meira að segja orðið til eins konar „fagurfræði uppsöfnunar“, þar sem áhrifamáttur listaverka og um leið listræn gæði eru mæld eftir því hversu mikið listamaðurinn kemst yfir að skrásetja. Af praktískum ástæðum eru það helst listamenn með áhuga á ljósmyndum sem ástundað hafa uppsöfnunarmyndlist af þessu tagi. Hún er ein helsta forsenda konseptmyndlistarinnar, sjá t.d. verksmiðjuturnana sem Berndt og Hilla Becher ljósmynduðu um gjörvallt Þýskaland á sjöunda áratugnum. Uppsöfnunarmyndlistin kemur einnig við sögu popplistar, gott dæmi eru málverk Andys Warhol og ljósmyndir Eds Ruscha af hverju einasta húsi við Sunset Strip, aðalgötuna í Los Angeles, sem er öðrum þræði tilraun til skrásetningar á þreyttum „glamúr“ bandarísku kvikmyndaborgarinnar.

 

Metnaður þeirra Björgvins Guðmundssonar ljósmyndara og félagsskaparins Ljósop í Reykjanesbæ  stendur til enn umfangsmeiri uppsöfnunar. Upprunaleg áform þeirra snerust um almenna hyllingu íbúa Reykjanesbæjar, gerð andlitsmynda af ákveðnum fjölda bæjarbúa á öllum aldri. Framkvæmdin hefur nú undið upp á sig. Sú sýning sem kynnt er hér á Ljósanótt er fyrsti kafli mikillar herferðar, hverrar endanlegt markmið er að taka ljósmyndir af öllum núlifandi Reyknesingum, heimamönnum jafnt sem burtfluttum íbúum bæjarins. Vissulega er hér ekki tjaldað til einnar nætur, en takist þeim Björgvin og félögum hans þetta ætlunarverk sitt, að öllu eða langmestu leyti, er hér lagður grunnur að mikilsverðu framlagi til uppsöfnunarmyndlistar, og ekki síður til áttahagabundinnar sagnfræði, mannfræði og félagsfræði.“

 

Opnuð hefur verið sérstök vefsíða í kringum verkefnið http://andlitbaejarins.com/

Sýningin er opin alla daga frá 12.00-17.00 og er ókeypis aðgangur.  Nánari upplýsingar gefur Björgvin Guðmundsson í síma 866-8632.