Sú venja hefur skapast á Ljósanótt undanfarin ár að heimafólk hefur verið í aðalhlutverki á sýningu Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum. Í ár var ætlunin að stíga skrefið til fulls og setja upp risastóra samsýningu listamanna af Suðurnesjum. Leitað var eftir verkum af öllum tegundum myndlistar, tvívíðum og þrívíðum verkum, málverkum, vatnslitamyndum, teikningum, ljósmyndum, skúlptúrum og í raun öllu því sem gat með góðu móti fallið undir víðustu skilgreiningu myndlistar. Skilyrðin fyrir þátttöku voru aðeins tvö; að listafólkið hefði náð 18 ára aldri og byggi á Suðurnesjum.
Markmið sýningarinnar var fyrst og fremst að sýna hina miklu grósku myndlistar á svæðinu og vonast var eftir að breiddin yrði sem mest, við fengjum lærða og leika, atvinnumenn og áhugamenn á öllum aldri sem blandast myndu í sköpuninni á eftirminnilegan hátt. Ákveðið var að hleypa öllum að sem uppfylltu skilyrðin og vildu vera með og þaðan er heiti sýningarinnar komið - við sýnum allt eða ekkert ! Tæplega 60 manns voru tilbúnir að taka þátt í þessu ævintýri undir stjórn sýningarstjórans Ingu Þóreyjar Jóhannsdóttur.
Ekki er um að ræða almenna stefnubreytingu hjá Listasafni Reykjanesbæjar í sýningarhaldi heldur er hér gerð tilraun til að skoða myndlist án fordóma. Eitt er víst að á Ljósanætursýningu Listasafns Reykjanesbæjar 2012 kennir ýmissa grasa og margt má þar skemmtilegt sjá. Bestu þakkir til allra sem voru tilbúnir að taka þátt í þessari djörfu tilraun og þá ekki síst sýningarstjóranum sem tókst á hendur afar erfitt verk.