Ástríðusafnarinn
Í stórum dráttum má skipta listasöfnurum í þrjá hópa, þá sem safna myndlist fyrir einskæra og djúpstæða ástríðu – verða ástfangnir af myndum eins og Þorvaldur Guðmundsson kallaði það – þá sem haldnir eru almennri söfnunaráráttu og safna myndum skipulega og þá fremur fyrir þörfina til að fylla upp í eyður en listnautn, ekki ósvipað og frímerkjasafnarar gera. Loks eru þeir sem „fjárfesta“ í myndum í því skyni að græða á endursölu þeirra. Að öllum líkindum fyrirfinnast einnig einstaklingar sem sameina í sér einhverja, eða alla, þessa þætti. Til að mynda má ímynda sér ástríðusafnara sem hætta að elska myndir sínar og setja þær í sölu; væntanlega eru þeir ekki frábitnir því að selja þær með gróða.
Bragi Guðlaugsson, iðnaðarmaður með meiru, mundi óhikað teljast til ástríðusafnara. Um langt árabil hefur hann verið fastagestur á öllum myndlistarsýningum á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem hann sækir heim myndlistarmenn til að kaupa af þeim myndir, skiptist á myndum við aðra safnara, verslar að auki við uppboðshús heima og erlendis. Eins og títt er um ástríðusafnara lætur Bragi tilviljanir og tilfinningar ráða för. Um leið er hann knúinn áfram af ákveðinni köllun, nefnilega að eignast bestu útgáfuna af hverjum listamanni sem hann hrífst af. Kaupi hann t.d. uppstillingu eftir Þorvald Skúlason, vill hann vera handviss um að eignast þá bestu sem völ er á. Til að öðlast þá fullvissu leggst hann iðulega í umfangsmikla eftirgrennslan. Og verður margs fróðari fyrir vikið.
Ástin fer ekki í manngreinarálit. Því hafa ástríðusafnarar eins og Bragi tilhneigingu til að vera býsna víðtækir í söfnun sinni. Í fórum hans er því að finna mörg ágæt verk frá ýmsum tímum. Heildstæðast er þó safn hans af verkum eftir íslenska listamenn á tímabilinu 1930-1960, þegar myndlistin í landinu stóð frammi fyrir meiri breytingum en nokkru sinni fyrr. Sérstaklega er lærdómsríkt safnið sem hann hefur komið sér upp af myndum og formyndum eftir þau Karl Kvaran, Guðmundu Andrésdóttur og Kristján Davíðsson.
Listasafn Reykjaness hefur fengið að velja úr þessu safni nokkrar myndir, aðallega olíumálverk, eftir þrettán listamenn sem endurspegla mikið umbrotaskeið íslenskrar myndlistar, þegar umfjöllun um veruleikann er smátt og smátt að víkja fyrir hugmyndinni um listaverkið sem sjálfstæðan veruleika. Þarna er aðallega um að ræða verkin sem kynslóð eftirstríðsáranna gerir í aðdraganda myndlistarbyltingarinnar sem kennd er við Septembersýningarnar 1947-52, sem sagt „Ágústmyndir Septembermanna“.
Listasafn Reykjaness vill þakka Braga Guðlaugssyni fyrir afnot af þessum myndum og einlægan áhuga á þessu sýningarverkefni, sem öðrum þræði er ætlað að bregða upp fræðandi svipmynd af áðurnefndu umbrotaskeiði.