Afleiddar Ómælisvíddir

Laugardaginn 16. janúar kl. 15.00 verður opnuð sýning á verkum listmálarans Björns Birnir í Listasafni Reykjanesbæjar. Á sýningunni sem ber yfirskriftina Afleiddar ómælisvíddir gefur mestmegnis að líta óhlutbundin akrílverk innblásin af árstíðunum. Björn Birnir hefur ekki verið áberandi í sýningarhaldi á ferli sínum en hefur þó lagt stund á myndlist í meira en hálfa öld og lengst af unnið að listinni samhliða öðrum störfum s.s. kennslu og stjórnun við málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands.


Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur segir um verk Björns að hann sé eini íslenski listamaðurinn sem byggt hefur verk sín á sandi í bókstaflegri merkingu. Þar vísar hann til þess að verk Björns einkennast gjarnan af víðerni, láréttum flötum sem teygja sig eftir endilöngum dúkum hans, án þess mótvægis lóðréttra dranga eða skáhallandi fjalla sem íslenskir áhorfendur reiða sig gjarnan á.

Sýningin er í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum og stendur til 28. febrúar. Þar er opið virka daga frá kl. 11.00 - 17.00 og um helgar frá kl. 13.00 - 17.00 og aðgangur er ókeypis.