Afbygging stóriðju í Helguvík

Listamannateymið Libia Castro & Ólafur Ólafsson opna sýninguna, Afbygging stóriðju í Helguvík, laugardaginn 24. febrúar 2024. Þó ekki sé um formlega opnun að ræða þann 24. febrúar, verða léttar veitingar í boði.

Opnunarhóf verður síðan haldið laugardaginn 9. mars kl. 14:00.

 

Afbygging stóriðjunnar í Helguvík er verk í vinnslu, við mælum með því að fólk komi oftar en einu sinni á sýningartímanum og taki þátt í samtalinu.

 

-----

Listasafn Reykjanesbæjar býður öll velkomin á sýninguna, Afbygging stóriðju í Helguvík, sem er verk í vinnslu og unnið í samstarfi og samtali Libiu Castro & Ólafs Ólafssonar við Töfrateymið, Andstæðinga stóriðju í Helguvík, umhverfisverndarsinnann og fyrrverandi framkvæmdarstjóra Landverndar Auði Önnu Magnúsdóttur, hagfræðinginn Ásgeir Brynjar Torfason, arkitektinn Arnhildi Pálmadóttur, aðra umhverfissinna, íbúa Reykjanesbæjar og nærsamfélaga og sýningarstjórann Jonatan Habib Engqvist.

 

Tóm skel iðnaðarbyggingar starir á okkur frá sjóndeildarhringnum. Lokuð, mengandi og gjaldþrota kísilverksmiðja í Helguvík vofir yfir á óstöðugri jarðskorpu Reykjanesskagans – aðeins steinsnar frá listasafninu – skaga sem enn er ásóttur af óljósum umhverfisáhrifum Varnarliðsins sem lokaði árið 2006.

 

Með Afbyggingu stóriðju í Helguvík halda listatvíeykið áfram að vinna samfélagsleg, staðtengd lista- og aktívistaverkefni. Að þessu sinni fjalla þau um hörmulegt ris og fall United Silicon, ásamt öðrum misheppnuðum verkefnum og áætlunum á svæðinu. Verksmiðja sem kaldhæðnislega var áætlað að yrði stærsta kísilverksmiðja í heimi – og hófst með fyrstu skóflustungu tekinni af stjórnendum, sveitarstjórnarfólki, iðnaðarráðherra og þáverandi forsætisráðherra. Stuttu síðar varð forsætisráðherrann að segja af sér eftir að hafa birst í Panama-skjölunum með aflandsfélag sem hann hafði ekki upplýst alþingi um.

 

Að endingu, eftir sterk viðbrögð íbúa Reykjanesbæjar, var verksmiðjunni lokað af Umhverfisstofnun vegna umhverfis- og heilbrigðisverndarsjónarmiða. Eftir aðeins tíu mánuði, varð hún mögulega sú kísilverksmiðja sögunnar með stysta líftímann. Eftir stendur þó draugalegur skugginn. Skuggi, eða skel, sem enn hefur haldið áfram að menga umhverfi sitt þar sem veður og vindar brjóta hana niður og byggingarefnin dreifast um umhverfið og menga bæði land og haf.

 

Með því að einblína á þátttöku samfélags- og umhverfis, sameinar sýningin fjölbreyttan uppruna, raddir og sjónarmið í Reykjanesbæ, sem einnig er stærsta innflytjenda- og alþjóðasamfélag á Íslandi. Yfir sýningartímann mun samtalið og samstarfið þróast, opinn borgarafundur mun verða haldinn að öllum líkindum 4. apríl klukkan 17:30-19:30 þar sem fjallað verður um og tekið á stöðu verksmiðjunnar og staðarins í tengslum við samfélagið, sjálfbærni og vernd náttúrunnar á svæðinu og ímyndaðrar framtíðar. Einnig mun hópurinn skipuleggja aðrar opinberar uppákomur og gjörninga.

 

Libia Castro og Ólafur Ólafsson halda áfram samstarfi sínu samhliða aktívisma, þverfaglegri samvinnu, þau skapa rými sem verður að staðbundinni opinberri sköpun sem er bæði verðandi og gerandi, gagnlegt tæki til þess að iðka list, til þess að endurskoða fortíð og framtíð svæðisins og berjast fyrir framtíðarmöguleikum, sem setja hag náttúrunnar, heilsu og vellíðan íbúa í fyrsta sæti, í stað gróða fárra einstaklinga á kostnað umhverfis og íbúa. Sýningin er verk í vinnslu, sem felur í sér uppsetningu, samfélagslegan skúlptúr, opnar almennar umræður, samtöl, gjörning, vídeóverk og texta.

 

Libia Castro & Ólafur Ólafsson hófu samstarf sitt í Hollandi árið 1997. Þau vinna þverfagleg samvinnuverkefni; með vídeó, ljósmyndun, hljóðskúlptúr og margmiðlunar innsetningar. Libia & Ólafur fóru fyrir hönd Íslands á Feneyjartvíæringinn árið 2011. Þau hafa sýnt verk sín í almannarýmum í ólíkum borgum víða um Evrópu og haldið einkasýningar um heim allan.

 

Jonatan Habib Engqvist er alþjóðlegur sýningarstjóri og höfundur. Frá 2021 hefur hann starfað sem ritstjóri Ord&Bild.

 

Sýningin er styrkt af Safnasjóði. Libia Castro og Ólafur Ólafsson eru styrkt af Myndlistarsjóði, Launasjóði listamanna, Myndstef, CBK Rotterdam art fund (Center of Visual Arts Rotterdam) og The Mondriaan Foundation.

 

Afbygging stóriðju í Helguvík stendur til sunnudagsins 28. apríl 2024.