Áfallalandslag

Landscapes of Trauma: a Reflection on Wonder.

Áfallalandslag

Landscapes of Trauma: a Reflection on Wonder.

 

Áfallalandslag er sýning sem ætlað er að tengja áhorfandann við atburðarás áfalla sem tengjast náttúruhamförum. Sýninginn er innblásin af grein sem skrifuð er af Sigurjóni Baldri Hafsteinssyni og Arnari Árnasyni, Landscapes of Trauma: a Reflection on Wonder.

Sigurjón Baldur og Arnar vitna í heimspeki trúfræðing Mary-Jane Rubenstein þar sem hún dregur saman línu á milli ensku orðanna wonder og wound. Enska orðið wonder þýðir meðal annars á íslensku; jarðteikn, undur, kraftaverk. Wound er þýtt á íslensku sem; særa, meiða, meiðst, áverki. Mary-Jane segir bæði orðin standa fyrir truflun hversdagsleikans, atburður sem brýtur upp daglegt líf með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Rannsókn þeirra Sigurjóns og Arnars beinist að áfalli sem íbúar Vestmanneyja urðu fyrir vegna náttúruhamfara árið 1973 og eftirmála þess í samtímanum.

Grein þeirra Sigurjóns og Arnars, vakti athygli undirritaðar þar sem Reykjanesið virðist vera að vakna í jarðfræðilegum skilningi og hafa margir jarðskjálftar mælst hærra en 4 stig á Richter mælikvarða, frá seinni hluta ársins 2020. Þannig kviknaði hugmynd mín að nota tungumál myndlistarinnar til að tjá áfall sem fylgir áverkum og undrum þess, sem verður fyrir hamförum að völdum náttúruafla. Listamennirnir  sem taka þátt í haustsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, Áfallalandsslagi, eru allir þekktir fyrir að vinna með krafta náttúrunnar í eigin myndlistasköpun.

 

Ósk Vilhjálmsdóttir (f. 1962) býr og starfar í Reykjavík, Ósk hefur haldið fjölmargar einkasýningar og verið valin til þess að sýna á samsýningum bæði hér á landi og erlendis. Hún hefur í listsköpun sinni enn fremur unnið með náttúruvernd og samskipti mannsins og náttúrunnar, þar sem Ósk virkjar þátttöku áhorfandans og skapar umræðuvettvang. Hún veltir upp siðferðislegum spurningum og vinnur með þekkingarsköpun innan samhengi listarinnar sem varðar m.a. tilvist nútímamannsins, nýtingu náttúrunnar, hnattvæðingu og neysluhyggju. Verk Óskar eru pólitísk, gagnrýnin og hún miðlar þeim með ljósmyndum, vídeóverkum og innsetningum en þau brjótast einnig út fyrir rými listasafnsins.

Ósk útskrifaðist sem Meisterschülerin árið 1994 undir leiðsögn próf. Valie Export frá Listaháskólanum í Berlín (Hochschule der Künste Berlin), Þýskalandi, stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1984-1986 og við Sorbonne-háskóla (Civilisation Française) í París, Frakklandi, 1983-1984. Ósk hefur starfað sem kennari í Listaháskóla Íslands og Myndlistarskólanum í Reykjavík. Hún var ein af stofnendum Framtíðarlandið/TheFutureIceland árið 2006 og hefur verið í stjórn Nýlistasafnsins.

 

Rannveig Jónsdóttir (f. 1992) býr og starfar á Ísafirði og hefur tekið þátt í sýningum bæði hér á landi og erlendis. Hún vinnur með innsetningar sem hverfast um hljóð, skúlptúr og texta, þar sem hið óefnislega og efnislega styðja hvort annað innan í ákveðnu rými. Innsetningar Rannveigar verða gjarnan til út frá samspili rannsókna og skáldskapar sem snúast um það að ná stjórn á hverfulleika lífsins. Að vinna með hljóð hefur einnig gefið henni færi á að vinna með upplifun eða tilfinningu og í verkum sínum hefur Rannveig m.a. gengið út frá hafinu, tækni, minningum og heimþrá.

Rannveig útskrifaðist með MFA-gráðu frá Listaháskólanum í Malmö (Konsthögskolan i Malmö), Svíþjóð, 2019 og BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands 2017. Hún var auk þess skiptinemi í Antwerpen, Belgíu, 2015-2016 og lauk fornámi í Myndlistaskólanum í Reykjavík 2014. Rannveig er aðstoðarmaður fyrir listamanninn Falke Pisano í Rotterdam.

 

Halldór Ásgeirsson (f. 1956) hefur búið og starfað víða, lengstan tíma á Íslandi, í Frakklandi og Japan. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og verið valin til þess að sýna á samsýningum bæði hér á landi og erlendis. Náttúruöflin, jörð, loft, vatn og eldur verið viðvarandi þema í verkum Halldórs, þar sem hann vinnur áfram með sköpunarverk náttúrunnar eins og alkemisti í gullgerðarlist. Halldór leyfir hugmyndum að þroskast lengi í undirmeðvitundinni, gerir tilraunir með efni og finnur þeim farveg í gjörningum, teikningum og innsetningum.

Halldór stundaði nám við myndlistardeild Parísarháskóla 8 (Université Paris 8 Vincennes - Saint-Denis, Dept. Arts Plastiques) í Frakklandi á árunum 1977-1980, 1983-1986 og lauk magistergráðu.

 

Gjörningaklúbburinn var stofnaður árið 1996 og er nú skipaður þeim Eirúnu Sigurðardóttur (f. 1971)  og Jóní Jónsdóttur (f. 1972). Gjörningaklúbburinn fær innblástur úr fjölbreyttri átt og útfærir hugmyndir sínar í margskonar miðla, ásamt því að vinna þvert á listgreinar og í samstarfi við aðra. Í verkum Gjörningaklúbbsins má einnig finna femínískar áherslur, vísanir í hlutverk konunnar, þær byggja gjarnan á handverki sem tengjast heimi kvenna. Þá hefur Gjörningaklúbburinn einnig unnið út frá sköpunarkraftinum og náttúrunni á pólitískan hátt.

Eirún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóli Íslands árið 1996, stundaði framhaldsnám við Listaháskólann í Berlín (Hochschule der Künste Berlin), Þýskalandi, 1996-1998 og útskrifaðist með viðbótardiplómu í hagnýtri jafnréttisfræði frá Háskóla Íslands árið 2014. Hún hefur verið stundakennari við myndlistardeild Listaháskóla Íslands frá 2001.

 

Jóní lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóli Íslands árið 1996 (skúlptúrdeild), stundaði framhaldsnám við málaradeild Konunglegu listaakademíunnar í Kaupmannahöfn (Det Kongelige Danske Kunstakademi) 1997-1999 og útskrifaðist með MArt.Ed-gráðu í kennslufræðum frá Listaháskóla Íslands árið 2011. Jóní hefur starfað sem kennari við Myndlistaskólann í Reykjavík og við myndlistar-, sviðlista- og listkennsludeild Listaháskóla Íslands.

 

Áfallalandslag er opin almenningi frá og með föstudeginum 4. september. 

 

Helga Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar og sýningastjóri Áfallalandslags, verður með sýningastjóraleiðsögn sunnudaginn 6. september, klukkan 15:00.