365 fiskar

Sýningin 365 Fiskar eftir listamanninn Martin Smida sem er fæddur í Prag árið 1960 en hefur búið í Þýskalandi síðan árið 1974. Hann nam myndlist við listaháskólann í Düsseldorf og starfar nú að list sinni í Wuppertal. Verkið 365 fiskar samanstendur af 365 skúlptúrum úr alls kyns efnum og vakti mikla athygli í Þýskalandi þegar það var fyrst sýnt í september árið 2001. Aðspurður segir listamaðurinn sjálfur um þetta verk að fiskarnir geti endurspeglað, hver um sig, einhverja gamla minningu um augnablik sem geta verið misjafnlega mikilvæg. Þetta geta verið þunglyndisleg, létt, erfið eða jafnvel ófullgerð augnablik. Sýningin er hingað komin í samstarfi við félagið Germaníu.

 

Það er ekki einfalt að lýsa eigin verkum. Þegar ég er spurður: „Af hverju þessir fiskar?" hef ég ekki svar á reiðum höndum. Ég segi hins vegar sögu: Það er síðla sumars. Ég er staddur í stórri verslunarmiðstöð, á brú yfir manngerðan læk. Sólargeislarnir falla skáhallt niður og gefa gruggugu vatninu grænan, þykkfljótandi blæ. Í vatninu birtist allt í einu, en samt hægt og bítandi, næstum tignarlega, hárauður fiskur. Það er þetta augnablik þegar fiskurinn birtist, sem ekki er hægt að átta sig á. Dularfulla birtan í vatninu og þessi ótrúlegi litur á fisknum fær mig til að gleyma öllu í kringum mig. Ég hef það á tilfinningunni að ég skynji eitthvað sérstakt, mér finnst ég hafi horfið inn í bernsku mína þegar allt snerist um uppgötvanir. Mig langar til að segja: „Sjáðu, þarna er fiskur!" Ég sný mér við og stend í stórri verslunarmiðstöð, á brú yfir manngerðan læk. Og allt í einu er ég ekki viss um hvort það var stórkostlegt að hafa séð gullfisk í vatninu. Ég finn til ofurlítillar einsemdar innan um allt fólkið. Ég veit ekki hvað ég gerði annað eða gerði ekki þennan dag. Því er ég búinn að gleyma. En þetta örstutta augnablik, rauði fiskurinn, græna vatnið og barnslega ánægjan er mér enn ofarlega í minni. Þetta er sagan um hárauða fiskinn. Það eru til mörg slík augnablik sem geta orðið að stuttum sögum ef maður gengur með opin augun í gegnum lífið. Við lítum á þessi augnablik sem lítilvæg og ómerkileg en samt sem áður eru þau mikilvæg. Í verkinu mínu „365 fiskar" hef ég reynt að sýna nokkur þessara augnablika sem fiska.

 

Þannig eru til skemmtileg, sorgleg og leiðinleg augnablik, en oft snýst upplifunin bara um sterkan lit eða skemmtilegt efni sem ég nota. Það eru til þunglyndisleg, létt, erfið, væmin, alvarleg, eða ófullgerð augnablik. Hverja tjáningu, hverja hugmynd, hve undarleg sem hún kann að vera, er hægt að réttlæta. Eiginlega ætti fólk ekki að vita hvað það er sem fær listamanninn til þess að gera eitt eða annað, því hver útskýring, tekur þann möguleika frá áhorfandanum að uppgötva eitthvað hjá sjálfum sér og gefa verkunum þannig líf. Og þegar ég er spurður: „Af hverju 365 fiskar?" þá svara ég: Þetta er einfaldlega markmið, tala sem lýsir röð af verkum og tala sem leyfir mér að ljúka einhverju, einhverju sem enn er ólokið því 1001 fiski get ég ekki lofað með góðri samvisku. Það gleður mig að fiskarnir mínir hafa náð um langan veg til Íslands og ég óska sýningargestum þess að þeir geri margar litlar uppgötvanir.

 

Martin Smida