12 m.y.s. (Altitude)

Föstudaginn 21. október 2005 var opnuð einkasýning Húberts Nóa Jóhannessonar á Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningin ber heitið 12 m.y.s (Altitude) og samanstendur af tveimur myndröðum og videoverki. Húbert Nói vinnur verk sín út frá GPS punktum og er önnur myndröðin 5 mælipunktar frá umhverfi Hjaltlandseyja og hin 5 mælipunktar við Búrfell. Videoverkið er af blásandi háhitaborholu sem líta má á sem myndbirtingu skapandi athafnar.

 

Í sýningarskrá segir Ólafur Gíslason m.a.: “ Þegar við hugleiðum óendanleikann í ríki náttúrunnar þá hættir hugsunin að höndla nokkurn hlutstæðan veruleika og fer ósjálfrátt að flökta um innlönd ímyndunaraflsins. Mörkin á milli hlutveru og hugveru leysast upp í móðu draumalandanna þar sem myndirnar þenjast út okkur verður villugjarnt, því þar duga engin GPS-mælitæki lengur; mælanleikinn er ekki lengur til staðar. Því vaknar þessi spurning: hvar liggja mörkin þarna á milli, hvar hættir hugurinn að "villast" í löndum dagdrauma okkar og hvar byrjar hinn haldbæri og hlutstæði veruleiki, sem við getum höndlað með mælitækni okkar, þannig að við vitum nákvæmlega hvar við erum stödd í veröldinni og þá um leið hver við sjálf erum í raun og veru?”

 

Húbert Nói hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum frá árinu 1986. Hann hefur hlotið viðurkenningu sem einn af okkar áhugaverðustu listamönnum í dag.