Má bjóða þér að sýna í Duus Safnahúsum?
Duus Safnahús og Listasafn Reykjanesbæjar vilja bjóða til samstarfs í sumar við fólk sem ástundar myndlist og býr á Suðurnesjum. Hugmyndin er að bjóða Bíósal undir myndlistarsýningu frá 4.júní til 27.ágúst. Það ræðst af fjölda og eðli umsókna hvort um eitt eða tvö sýningartímabil verður að ræða, eins geta sýnendur reiknað með að taka þátt í samsýningu.
Áhugasamir eru hvattir til að sækja um sýningarpláss. Með umsókn þarf að fylgja greinargóð lýsing á þeirri sýningu sem fyrirhuguð er og ljósmynd með sýnishorni af þeim verkum sem til stendur að sýna. Margs konar listform kemur til greina svo sem málverk, grafík, teikningar, ljósmyndir, skúlptúrar o.fl. Ekki er þó gert ráð fyrir rafrænni miðlun að þessu sinni. Notast verður við sýningakerfi Bíósalar sem eru brautir með nælonþráðum. Ekki er heimilt að negla í veggi. Val á sýnendum er í höndum Listasafns Reykjanesbæjar.
Sýnendur bera sjálfir ábyrgð á sýningunni og sjá um uppsetningu með aðstoð frá Listasafni Reykjanesbæjar. Sýnendur fylgja þeim reglum sem gilda um starfsemi í Duus Safnahúsum. Listasafnið áskilur sér rétt til að velja úr verkum sýnenda í samstarfi við þá.
Allir sem stunda myndlist af einhverju tagi geta sótt um en þeir sem ekki hafa sýnt í húsunum áður hafa forgang. Hópar geta einnig tekið sig saman og sótt um í einu nafni. Þá er yngra fólk einnig sérstaklega hvatt til að sækja um.
Umsóknir skulu sendar í tölvupósti á netfangið helga.a.palsdottir@reykjanesbaer.is í síðasta lagi 17.maí. Í efnislínu (subject) skal skrifa: Sumarsýning í Bíósal. Öllum umsóknum verður svarað.
Með umsókn skal fylgja:
- Greinargóð lýsing á fyrirhugaðri sýningu, svo sem hvernig verk, fjöldi, stærð, efnisinntak o.s.frv.
- Ljósmynd/ljósmyndir með sýnishorni af verkum
- Ferilskrá umsækjanda