Innskot

Loji Höskuldsson, 1987, Reykjavík, Ísland. Útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010. Hann hefur spilað með mörgum mismunandi hljómsveitum í gegnum tíðina, s.s. Sudden Weather Change 2006-2012, Wesen, I:B:M:, Prins Póló, Tilfinningar vina minna og einnig undir sínu eigin nafni. Hann hefur spilað oft á Iceland Airwaves og Sónar Reykjavík og einnig túrað um Evrópu og Ameríku.


Loji hefur skrifað tvö útvarpsleikrit: Hafið hefur 1000 andlit (2015) sem var flutt á Rás 1 árið 2015 og Eftir súpuna sérðu liti hafsins (2010) sem var flutt lifandi í Hafnarhúsinu 2010.


Í myndlist sinni kannar Loji hefðbundnar og nýjar leiðir í útsaumi, tækni sem hann hefur þróað útfrá mömmu sinni en hún er atvinnusaumakona og útsaumssnillingur. Í útsaumi hans er viðfangsefnið fengið úr hversdagsleikanum; plöntur, ávextir og hlutir sem finnast á heimilum.


Áslaug Thorlacius, 11.09.1963, Reykjavík, Ísland, er myndlistarkona, kennari og þýðandi, hún er skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík. Áslaug hefur haldið fjölda sýninga, verið framkvæmdastjóri Sambands íslenskra myndlistarmanna og kennt í grunnskóla, háskóla og Myndlistaskólanum í Reykjavík.


Um eigin myndlist segir hún:


Ég nota þá tækni sem ég tel henta hverju verkefni. Hef unnið ljósmyndir í tölvu auk þess sem ég hef notað ,,ready-made” hluti og texta í verkum mínum. Bý til skúlptúra, teikna og mála, hvort heldur það er með vatnslitum, bleki, olíu eða temperu. Er upptekin af handverki og hefðbundnum viðfangsefnum listarinnar og reyni að finna hið háleita og fagra í mínu nánasta umhverfi.

Innskot


Ljóðræn tilviljun.


Ég átti erindi við konu í úthverfi innri Njarðvík, útvarpið var stillt á RÚV 1 (eins og alltaf,
í mínum bíl er bannað að skipta um rás) það var ekki tilviljun. Á meðan ég villtist um
úthverfið, sem ekki heldur var tilviljun (ég villist alltaf í úthverfum). Tilkynnti þáttastjórnandi
að í þættinum yrði rætt við vinkonu mína, Dr. Margréti Elísabetu Ólafsdóttur
í list- og fagurfræði og nokkra listamenn um hvernig þeir höndla „ástandið“ á tímum
Kórona vírusa.


Ég hlusta áfram, því ég vil heyra hvað Margrét hefur að segja, en fyrst er rætt við listamennina,
því hlustaði ég á það samtal fyrir tilviljun. Logi Höskuldsson (Loji) er fyrstur á
mælendaskrá, hann fer að ræða um ný saumaspor sem hann hefur loksins tíma til að
prófa og hvernig hann saknar þess að hitta vini sína í sveittum kjallara í þeim tilgangi
að fá útrás í hljóðsköpun saman.


Á meðan ég hlusta á Loga tala fer hugur minn að reika um myndheim hans, upp koma
myndskot þar sem fífur sveigjast í vindi innan vel afgirts svæðis, einkasvæði helgað
einstaklingi. Vasi Eyborgar Guðmundsdóttur, vekur minningar um heimili ömmu minnar.
Hið heilaga heimili, öryggi, jafnvel hamingja. Ég heyri í eilífðarklukku Halldórs
Laxness, þar sem tíminn er stemmning, ævarandi augnablik.


Skyndilega er ég hætt að keyra veg, mér finnst ég frekar feta stíg undir frásögn Loga.


Milan Kundera útskýrir muninn á stíg og veg í bók sinni Ódauðleikanum, sem kom
út á íslensku árið 1990 í þýðingu Friðriks Rafnssonar, þar segir hann: „Stígur: landamæra
sem gengið er eftir. Vegurinn er ekki aðeins frábrugðin stígnum að því leyti
að ekið er eftir honum, heldur er hann einfaldlega lína sem liggur á milli tveggja punkta.
Vegurinn hefur enga merkingu í sjálfu sér; aðeins þeir punktar sem hann tengir
saman. Stígurinn er lofgjörð rýmisins. Hver smáspotti af stígnum er hlaðinn eigin
merkingu og býður okkur að staldra við. Vegurinn gerir sigri hrósandi sem minnst úr
gildi vegalengdanna, sem nú eru aðeins taldar manninum til trafala, tímasóun.“


Ég held áfram að villast um innri Njarðvík, en geri það nú með meðvituðum hætti
þar sem ég veit ekki lengur hvar punktur B er, því ég er farin af vegnum komin inn
á stíginn. Hugurinn reikar, er stilltur á rás eilífðarklukkunnar. Upp í huga minn skýst
önnur minning um mynd sem ég sá fyrir mörgum árum í Hafnarborg. Myndin er eftir
Áslaugu Thorlacius, Augnablik í eldhúsi, allt í einu er myndheimur Áslaugar og Loga,
brostinn í vals við eilífðarklukkuna, samhæfing þeirra er náttúruleg, hnökralaus.


Bæði yrkja þau um eilífðarklukkuna, um persónulegt rými, um hlutlæga tjáningu
mannfólksins, um stemmningu tilviljana, um augnablik barnsins, um augnablik
móðurhlutverksins, um innri líðanda mannverunnar.


Hugur minn tekur upp vals Loga og Áslaugar, veit núna akkúrat hvar stígurinn endar
og hvert útsýnið er þaðan.


Innskotið á veginum leiddi til stígarins og birti mér útsýnið. Hlutverk innskotsins í hinu
stóra samhengi tilverunnar. Kundera fjallar nánar um hugmyndina um innskotið í bók
sinni Ódauðleikanum:


„Innskotið er mikilvægt hugtak í verki Aristótelesar, Um skáldskaparlistina, Aristóteles
er lítt hrifinn að innskotinu. Innskotstilburðir eru að hans dómi allra atburða verstir (ef
litið er út frá skáldskaparlistinni). Þar sem innskotið er ekki nauðsynleg afleiðing þess
sem undan er gengið og hefur engar afleiðingar í för með sér, stendur utan við þá
atburðarás sem sagan er.“


En innskotið getur verið sagan sjálf, svo tengt sem það er eilífðartímanum, hreyfing
bolta, matur í ofni, blúnda á stól. Virkni þess smáa á líðanda hverjar mannveru.
Kundera gengur út frá forsendum Aristótelesar, en bætir síðan við þessu: „Ekkert
innskot er fyrirfram dæmt til að vera innskot til eilífðarnóns, því hver atburður, jafnvel
sá allra ómerkilegasti, býr yfir þeim möguleika að geta seinna orðið orsök annarra
atburða, og breytast á þann hátt í sögu, ævintýri.“


Þannig eru möguleikar innskotsins óendanlegir, það gefur stígnum ófyrirséð rými sem
breytir framgangi sögunnar.

Helga Þórsdóttr Sýningarstjóri